13.08.1914
Sameinað þing: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

130. mál, gjaldmiðill

Flutningsmaður (Sveinn Björnsson):

Eins og hinu háa Alþingi er kunnugt, lá hjer fyrir þinginu í sumar frumvarp um að auka seðlaútgáfurjett Íslandsbanka. — Frumvarp þetta var samþykt í háttv. Nd., en í háttv. Ed. var það afgreitt með rökstuddri dagskrá, þar sem málinu var vísað til stjórnarinnar.

Því var haldið fram í neðri deild, að eins og ástæður væru nú, bæri brýna nauðsyn til að gjöra ráðstafanir til að auka gjaldmiðil í landinu, með því að seðlar Íslandsbanka og Landsbankans mundu eigi nægja til að fullnægja innlendri viðskiftaþörf vorri. En eins og jeg gat um, stöðvaðist frv. í háttv. Ed.

Í dag var mjer sem þingmanni Reykvíkinga afhent brjef, undirritað af ýmsum kaupsýslumönnum í Reykjavík og Hafnarfirði. Brjefið er að vísu stílað til háttv.

Nd., en með því nú er alveg komið að þinglokum, og eins og málinu að öðru leyti er varið, taldi jeg rjettast að beina málaleitan þessari til sameinaðs þings. Með leyfi hæstv. forseti mun jeg lesa brjefið upp, þar sem jeg býst við að það muni ekki kunnugt öllum háttv. þingmönnum. Brjefið hljóðar svo :

„Eins og hinni háttv. neðri deild Alþingis er kunnugt, er þegar byrjuð styrjöld, sem nær yfir meiri hluta Norðurálfunnar, og veit enginn enn hvort styrjöld þessi varir langan eða skamman tíma eða hver áhrif hún getur haft á viðskiftalíf Norðurálfuþjóðanna.

Þegar í byrjun styrjaldarinnar gjörðu þjóðir þær, er oss standa næsi, ýmsar ráðstafanir, til þess að geta varist þeim óheillavænlegu áhrifum, sem stríðið hlýtur að hafa á alt viðskiftalíf þeirra, og Alþingi Íslendinga, sem nú stendur yfir, gjörði einnig ýmsar ráðstafanir, til þess að tryggja það, að hin yfirvofandi stríðshætta kæmi ekki altof hart niður á þjóð vorri.

Meðal ráðstafana þeirra, sem gjörðar hafa verið víðsvegar um heiminn í þessa átt, er það, að veita bönkum, þeim sem hafa innleysanlega seðla, undanþágu frá innlausninni meðan á stríðinu stendur.

Allir hljóta að sjá hvaða áhrif það hlýtur að hafa, að kippa öllu gulli burtu af markaðinum í einu. Þörfin og eftirspurnin eftir öðrum gjaldmiðli (þ. e. seðlum) hlýtur mjög að aukast við það, enda hafa nágrannaþjóðir vorar, t, d. Bretar og Danir, sjeð, að jafnhliða kyrsetning gullforðans þurfti að auka seðlaútgáfuna og gjört það nú, eins og viðskiftaþörfin krefst, með útgáfu nýrra seðla.

Alþingi í ár hafði til meðferðar frumvarp til laga um aukning seðlaútgáfurjettar Íslandsbanka, sem vjer og allur almenningur bjuggumst við að næði samþykki alls þingsins, enda fjekk mál þetta góðan byr í neðri deild og var afgreitt þaðan með miklum atkvæðamun, en nú hefur frumvarp þetta verið felt í efri deild, og teljum vjer það mjög mikið óhapp, þar sem, ef frumvarp þetta hefði orðið að lögum, hefði það þó bætt allmikið úr sárustu þörfinni.

Þingið hefir þannig ekki enn leyst þann hnútinn, sem mest var þörf að leysa; það hefir að eins kyrsett málmforða bankans, án þess að bæta úr því, að nokkur annar gjaldmiðill kæmi á markaðinn.

Vegna Evrópuófriðarins, sem nú stendur yfir, er ekki unt fyrir bankana eða einstaka menn að nálgast framandi gjaldmiðil, hvorki seðla eða gull. Hinsvegar krefur viðskiftaþörfin hjer, nú og til ársloka að minsta kosti, mjög mikinn gjaldeyri, miklu meiri en bönkunum er heimilt að gefa út. Það er ársarður alls landsins, sem út á að flytja nú og til ársloka, sem að mestu leyti þarf að útleysa hjerlendis með peningingum, eftir því sem viðskiftalífi þjóðarinnar er nú háttað. Á sama tíma þarf að greiða mjög mikið af verkkaupi bæði til sjós og sveitar o. s, frv. En teppist eðlileg og sjálfsögð viðskifti í landinu, sökum vöntunar á gjaldeyri, þá leiðir af því ófyrirsjáanlega stórt fjárhagstjón fyrir alla þjóðina.

Af meðferð frumvarps þess til laga, sem minst er hjer á að framan, í þinginu, er oss það ljóst, að neðri deild Alþingis skilur vel hver háski viðskiftalífi þjóðarinnar er búinn af þeim fjárhagslegu kringumstæðum, sem nú eru fyrir dyrum, ef ekkert er aðgjört, og fyrir því leyfum vjer oss að snúa oss til yðar með þá áskorun, að þjer áður en þessu þingi er slitið samþykkið þingsályktunartillögu, er gefi stjórninni heimild til, með bráðabirgðalögum, að sjá landsmönnum fyrir nægilega miklum gjaldmiðli, eftir því sem þörf krefur, og meðan Norðurálfuófriðurinn bakar peningastofnunum landsins þá örðugleika með útvegun peninga, sem raun er á orðin.

Reykjavík 13. ágúst 1914.

Ásgeir Sigurðsson.

Jes Zimsen.

Aug. Flygenring.

Jón Laxdal.

pr. G. Copland,

Jón Laxdal.

pr. Bookless Bros.,

Ó. Valdimarsson.

pr. Fiskiveiðahl.fjel. Ísland,

Jes Zimsen.

H. Benediktsson.

P. J. Thorsteinsson.

Einar Þorgilsson.

Th. Thorsteinsson.

pr. h. f. Haukur,

P. J. Thorsteinsson.

Nathan & Olsen.

Garðar Gíslason.

pr. Fiskiv.fjel. Alliance,

Jón Ólafsson.

pr. h. f. Kveldúlfur,

Thor Jensen. pr. h. f. Bragi,

Th. Thorsteinsson.

O. Johnson & Kaaber.

Til neðri deildar Alþingis“.

Síðan fjekk jeg svohljóðandi yfirlýsingu frá H. P. Duus:

„Hjer með lýsi jeg því yfir, að jeg er samþykkur áskorun kaupmanna og annara til neðri deildar Alþingis, dags. í dag, er snertir rjett til aukinnar seðlaútgáfu.

Reykjavík, þann 13. ágúst 1914.

H. P. Duus.

Jeg áleit að það væri full þörf á að skýra háttv. þingi frá brjefi þessu; en það skal jeg taka fram, að jeg er ekki með öllu persónulega samþykkur röksemdafærslu brjefsins.

Þegar jeg hafði fengið brjef þetta, sneri jeg mjer þegar til hæstv. ráðherra, og skildist mjer á honum, að hann liti svo á, að þar sem neðri deild hefði áður lýst því yfir í frumvarpsformi, að það væri álit hennar og vilji, að gjaldmiðill væri aukinn í landinu, ef þörf krefði, þá væri ekki bættara með því, þótt hún samþykti aftur hið sama í tillöguformi. Þetta, ásamt því sem jeg nefndi áðan, er ástæðan til þess, að tillagan kemur fram í sameinuðu þingi. Jeg hefi einnig borið mig saman við þann flokk, sem jeg tel mig til, og í samráði við hann er þessi tillaga komin fram. Tilgangur tillögunnar er sá, ef hún verður samþykt, þá megi svo á líta, að þingið gefi stjórninni með því til kynna, að þó svo hafi farið, að það yrði ofan á, að það vildi ekki að þessu sinni veita Íslandsbanka aukinn seðlaútgáfurjett, þá sje það því þó engan veginn móthverft, að aukinn sje gjaldmiðill í landinu, ef brýn þörf krefur. Hjer er nefnt til dæmis eitt form, sem stjórnin gæti haft til að auka gangeyri í landinu, þar sem bent er á, að gefinn sje út fyrir landssjóðs hönd gjaldmiðill, er hljóði upp á 100 kr. hvert skírteini, og að þessi gjaldmiðill sje lánaður Íslandsbanka, ef hann óskar þess, gegn 4% ársvöxtum og nægilegri tryggingu. Á þennan hátt mundi mega bæta úr bráðustu þörfinni. En þótt þetta sje nefnt sem dæmi, þá er ekki tilætlunin að einbinda stjórnina við þetta form.

Með tilliti til þess, að nú geta farið alvörutímar í hönd, og af því að mikil ástæða getur verið að taka tillit til óska kaupsýslumannanna, þá vænti jeg þess, að hið háa Alþingi sjái sjer fært að samþykkja tillögu þessa og gefa stjórninni með því bendingu um að gjöra það, sem hún álítur nauðsynlegt í þessu máli og best til fallið.