29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

75. mál, sparisjóðir

Umboðsm. ráðh. (Kl. J.):

Það er rétt, hjá háttv. 1. þm. Hún. (G. H.) að þetta mál var komið í talavert óefni eftir atkvæðagreiðsluna úr 2. umr. þess, en nú lítur svo út, sem því verði komið í viðunanlegt horf, einkum ef samþykt verður brt. nr. 2 á þskj. 210.

Eg get fullkomlega aðhylst brt. á þskj. 210, 1. lið, sem er sama tillagan og á 226, þriðja lið. Stjórnin hafði einmitt hugsað sér að taka þetta ákvæði upp, en féll þó frá því, vegna þess að því gagnstæð ályktun var tekin í báðum deildum í fyrra.

Eg hefi leyft mér að koma fram með brt. á þskj. 247, að í stað 100 þús. kr. kæmi 50 þús. kr. Gerði eg það meðal annars til þess, að fleiri tala en ein gæti komið til atkvæða. En nú sé eg, að meiri hluti nefndarinnar hefir komið með samskonar brt. á þskj. 259. Verði sú till. samþykt, þá skoða eg mína tillögu sjálffallna. En verði það ekki, þá verð eg að halda því fram, að réttara sé að aðhyllast mína tillögu, en tillöguna á þskj. 226 nr. 2.

Það gefur að skilja, að þetta ákvæði, eins og það er orðað á þskj. 226, er næsta þýðingarlítið, ef því er ekki ætlað að ná nema til 2–4 sparisjóða, eftir því sem var í síðustu skýrslu um sparisjóði — sennilega yrði þeir fjórir nú. Ef mín brt. yrði samþykt, þá yrði þeir þó 6, eða nú líklega 9, meiri er nú ekki breytingin. Og það er ekki til of mikils ætlast, að sjóðir, sem hafa 50 þús. kr. innstæðufé og þar yfir, hafi sérstakan bókara og gjaldkera.

Þá skal eg minnast stuttlega á brt. tveggja háttv. þm. við 12. gr. á þskj. 226. Aðaltillagan er þess efnis, að 3. málagrein falli alveg niður, en til vara að setja 3% í staðinn fyrir 5%. Eg held, að það hafi verið háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem gat þess við 1. umr., að ákvæðið í 16. gr. um 5% í handbæru fé sé nokkuð hart, auk ákvæða 2. gr. Hann tók það fram, að það gæti komið fyrir, að sparisjóðir ætti ekki svo mikinn varasjóð, og nefndi t. d. sparisjóðinn Gullfoss í Árnessýslu. Það er nú alveg sjálfsagt, að þótt þessi ákvæði standi, þá verður ekki heimtað meira en hann er, þangað til hann hefir náð fullri upphæð. Það dettur engum í hug, að ætlast til að hann fari að auka við varasjóð sinn frekar en gerist á eðlilegan hátt, svo í þessu er engin mótsögn, en vera má, að það þætti nærgætnislegra að samþykkja varatillögu á þskj. 226. Það er ætíð álitamál, hvaða tölur eru réttar. Í sparisjóði, sem hefir 50 þús. kr. vísa innstæðu, er ætlað til að hafa handbært eftir 12. og 16. gr. 2500 +2500 kr. = 5000 kr. Þetta kann að vera nokkuð hátt, og sanngjarnara sé að hafa eftir 16. gr. 2500 og eftir 12. gr. samkv. varatillögum 1500=4000 kr. Eg get því vel aðhylst varatill.

Eg skal í sambandi við þetta minnast á brt. við 16. gr., þar sem farið er fram á að sleppa því ákvæði, sem stóð í frv., að varasjóður skuli vera í peningum. Þessu ákvæði vilja háttv. þm., sem standa að brt. á þskj. 226, alveg sleppa, en það get eg alls ekki fallist á. Sennilega á það að nægja, að inneign sé í Landsbankanum, sem sé sama sem peningar, en það er það enganveginn hjá sparisjóðum langt frá Rvík.

Það hefir verið tekið fram, að rétt væri að breyta orðinu »bönkum« í »Landsbankanum«, til þess að leiðrétta ósamræmi, sem ella yrði í frv. Þetta var nú nauðsynlegt samræmisins vegna, en annars er það vitanlegt, að það eru til sparisjóðir, sem skifta líka við Íslandsbanka, og gæti eg þá hugsað, að sá banki setti þeim það skilyrði, að þeir ætti verðbréf sín hjá honum. Þetta gæti því ef til vill orðið til þess, að hann neitaði sjóðum um viðskifti, ef það yrði samþykt að einskorða þetta við Landsbankann, og þetta er íhugunarvert.

Það lítur út fyrir það nú orðið, að þetta frv. ætli þó að komast hér út úr deildinni í viðunanlegum búningi, og þá ætti ekki að þurfa að óttast háttv. Ed. Þetta er vel farið, því að þetta frv. er þýðingarmesta mátið, sem fyrir þinginu liggur, næst á eftir stjórnarskrármálinu, og varðar því miklu, að það fái góðar endalyktir.