09.07.1914
Neðri deild: 7. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

14. mál, vörutollur

Benedikt Sveinsson:

Jafnvel þótt háttv. þm. Ak. (M. Kr.) hafi skýrt málið allrækilega frá sínu sjónarmiði, þá álít eg nefndarkosningu nauðsynlega, vegna þess, að sennilegt er að fleiri hafi hugsað sér að koma fram með breyt.till., þótt lögunum sé ekki skapaður lengri aldur en til annara næstu áramóta. Það eru enn fremur öll líkindi til þess, að vörutollslögin verði framlengd, með einhverjum breytingum á næsta þingi, og er þá ekki ótímabært, að ýmsar breytingatillögur við þau verði íhugaðar nú af nefnd.

Mér virðist því rangt að amast við nefndarkosningu í málið. Reynist svo, að hún hafi ekki mikið að gera, þá lýkur hún störfum sínum fljótt og þá ætti það ekki að valda mikilli tímatöf, þótt hún sé kosin.