31.07.1914
Neðri deild: 29. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

51. mál, vegir

Sigurður Sigurðsson :

Mér heyrðist ein af ástæðum háttv. l. þm. G.-K. (B. Kr.) með þessu máli vera sú, að bifreiðir færi svo mikið um þennan veg og skemdi hann. Þetta er einmitt ein af ástæðunum fyrir því, að frumv. það kom fram, um að létta vegaviðhaldið af nokkrum sýslum, að því er snertir einstaka vegakafla, og áðan var felt. En þar sem háttv. l. þm. G.-K. (B. Kr.) kemur með þessa ástæðu fyrir því, að þessu máli verði sint á þessum grundvelli, þá minnir það mig á ummæli hv. 1. þm. Húnv. (G. H.) í hinu nafntogaða nefndaráliti hans, þar sem hann segir, að umrenningar geri ekki skaða á vegunum. Ef þeir gera ekki skaða á vegunum fyrir austan, þá gera þeir heldur ekki skaða á Hafnarfjarðarveginum. En annara verð eg að segja, að eg trúi betur því, sem eftirtökusamir ferðamenn, sem um veginn fara með opin augun á hestum sínum, segja, heldur en Reykvíkingur, sem ferðast í lokaðri bifreið að næturlagi, þreyttur og syfjaður, og getur því ekki veitt því eftirtekt, sem fram fer eða séð hvort bifreiðin skemmir veginn eða ekki.