03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

51. mál, vegir

Flutningsm. (Björn Kristjánsson). Við 1. umræðu skýrði eg frá ástæðunum fyrir þessu frumv., og þarf eg því ekki að endurtaka þær hér.

Eg hefi heyrt það hljóð í sumum hv. þm., að þeir vilji skera þetta mál niður við sama trogið, eins og aðrar breytingar á vegalögunum, sem hér hafa verið á ferðinni. Þetta virðist mér vera alveg ástæðulaust. Þau frumv. stefndu sem sé að gagngerðri breytingu á allri stefnu þeirra laga í vegamálum, sem sé þeirri, að landssjóður tæki að sér alt viðhald flutningabrautanna. Það hafði hann ekki áður, nema að örlitlum hluta, og væri því þessu samfara afarmikill útgjaldaauki fyrir landið. Aftur á móti er þetta frumv. í eðli sínu samkvæmt vegalögunum, þar sem það fer ekki fram á annað, en að taka þenna vegarkafla í tölu flutningabrautar með venjulegum skilmálum vegalaganna.

Eg hefi áður bent á það, hve lítils góðs sú sýsla, sem hér er um að ræða, hafi notið af vegalögunum, og þess vegna vona eg, þó að töluverður sláturhugur kunni að vera í sumum háttv. þm., að þessu frumv. verði lofað að lifa, einkum þar sem menn vóru svo sammála um það í háttv. Ed., að þetta sanngirnismál ætti fram að ganga. Það yrði mikill tálmi fyrir umferðina, ef þessi vegarkafli félli niður, og til þess eru allar líkur, að svo verði, því að eins og eg hefi margsagt, kemur það ekki til nokkurra mála, að sýslurnar geti kostað viðhald á honum, eða bygt hann frá stofni, sem með þarf. Eg skal svo ekki fjölyrða um þetta, en eg vona að frumvarpið verði samþykt, eina og við 1. umr., og að menn átti sig á því, að það er alveg sjálfsagt mál.