26.07.1914
Neðri deild: 19. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

79. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Pétur Jónsson :

Eg skal lýsa því yfir, að það sem eg sagði áðan viðvíkjandi heimild stjórnarinnar til að veita lán til embættisbústaða, var frá eigin brjósti mínu. Það er aðgætandi, að eftir þeirri stefnu, sem nefndin tók í fyrstunni, vísaði hún þessu máli frá sér án tillits til þessa, aðeins af því að henni fanst það ekki bráðnauðsynlegt. Það var skoðun fjárlaganefndarinnar 1913, að stjórnin mundi hafa heimild til að veita slík lán án sérstakrar heimildar í fjárlögunum og dró það af því, að stjórnin hefir veitt slík lán án sérstakrar heimildar í fjárlögum. Og eg vil bæta því við, að eg tel það mjög heppilegt. Stjórnin hefir heldur ekki farið svo langt í þessu, að ástæða sé til að kippa að sér hendinni.

Það hefir litla þýðingu að tala um Magnús Guðmundsson skipasmið, því að nefndin hefir samkvæmt þessu »principi« sínu ekki séð sér fært að taka beiðni hana til greina. Nefndin hefir því ekki rannsakað það nákvæmlega, hvort þessi maður eigi það öllum fremur skilið að fá þennan styrk. Hún lítur svo á, að slíkt eigi ekki að koma til þingsins kasta. Þegar þetta er borið saman við það, hvernig hagar til um aðrar persónulegar fjárveitingar, þá er þess að gæta, að þingið er fyrir löngu hætt að styrkja menn t. d. til búnaðarnáma, heldur er Búnaðarfélaginu falið að annast um úthlutun þeirra styrkveitinga. Það er skoðun nefndarinnar, að eins ætti að sínu leyti að vera um iðnnema, þá ætti Iðnaðarmannafélagið að styrkja með aðstoð alþingis. Nú hefir hæstv. landritari upplýst, að af fé því, sem veitt er til iðnaðarnáms erlendis, gæti eigi tekist nema oflítil upphæð til þessa manns. En þá heyrir beint undir Fiskiveiðafélag Íslands að hlaupa undir bagga að sínu leyti eina og Búnaðarfélag Íslands sér um þá menn, sem fara til búnaðarnáma.