18.07.1914
Neðri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

7. mál, girðingar

Stefán Stefánsson:

Þegar eg leit fyrst á þetta frv., sem er framkomið frá þingmönnum Árnesinga, datt mér ekki annað í hug, þar sem það var breyting á 8. gr. girðingarlaganna, en að með því væri fengið greinilegt ákvæði um það, hvort heldur jarðeiganda eða ábúanda bæri að greiða kostnað við girðingar jarða á milli, þegar nágranni girti án samkomulags á merkjum.

Í mínu kjördæmi komu fram raddir um það, að þetta væri óljóst í lögunum, og því væri öll þörf á að fá hér skýrara ákvæði. Þessa vegna þótti mér það vel farið að þetta frv. kom fram. En þegar eg fór að athuga það nánar, sá eg, að þetta er ekki nægilega ljóst.

Það er að vísu sagt, að úttektarmenn skuli meta notagildi girðingarinnar fyrir alla þá, sem hlut eiga að máli, og jafna niður kostnaðinum samkvæmt því». En þegar talað er um að meta notagildi girðingarinnar, þá er ýmislegt, sem verður að taka til greina, t. d. það, hve lengi leiguliði hefir ábúðarrétt á jörðinni. Sömuleiðis getur ábúandi dáið eða hætt ábúð á jörðinni af öðrum ástæðum, áður en ábúðartími samkvæmt byggingarbréfi er útrunninn, en er þó búinn að greiða byggingarkostnað af girðingunni. Til þess að koma í veg fyrir þetta, hefi eg leyft mér að koma fram með brt. á þskj. 124. Er þar lagt til, að girðingarkostnaðinum skuli jafna niður á jarðeigendur, að tiltölu við gagn hverrar jarðar. En ábúandi sé skyldur til að halda girðingunni við og greiða árlega 2% af girðingarkostnaði. Þetta virðist mér vera eðlilegt og í nokkurnveginn samræmi við aðra skilmála milli jarðeigenda og leiguliða, en að hinn leytinu rétt, að sett sé skýr ákvæði um það, að hve miklu leyti eigandi jarðar geti varpað þessum kostnaði yfir á leiguliða. Með þessari breytingu finst mér málið verða ósköp einfalt og óbrotið og sneitt fyrir þann vanda, sem annars hefði legið á matsmönnunum.

Þá er í síðari málsgrein 1. gr. frumv. sagt, að kostnað af girðingu milli kauptúns og jarðar skuli ábúanda jarðarinnar heimilt að fá endurgoldinn af kauptúninu «svo sem áður er ummælt». Þetta virðist mér varhugavert, því að venjulega er það svo, þegar girt er við kauptún, að kauptúnið hefir fremur óhag en hag af girðingunni, og eigi að miða framlag girðingarkostnaðar einasta við notagildi, þá mundu kauptúnsbúar eða eigendur þess lands, venjulegast verða fríir við allan kostnað af slíkum girðingum, en það hygg eg vera í alla staði óeðlilegt og óréttlátt. Það getur auðsjáanlega ekki verið eðlileg skylda þess manns, sem er að verja land sitt fyrir ágangi af kauptúni, að leggja fram allan kostnaðinn, þó að hinu leytinu verði máske ekki sagt, að aðrir hafi gagn eða bein not af girðingunni. Þess vegna hefi eg leyft mér að koma með breytingartillögur um, að helming kostnaðarins skuli kauptúnið leggja fram í hverju einstöku tilfelli. Eg ætla þá ekki að fjölyrða um þetta mál frekar, en býst hinsvegar við, að breytingartillögur mínar verði ræddar, hvort sem deildin álítur þær svo, að við megi una eða ekki.