16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

27. mál, forðagæsla

Flutningsm. (Einar Arnórsson):

Eg get farið stutt yfir sögu, því að þeir, sem talað hafa á móti frumv., hafa flestir sagt hið sama. Þeir hafa talað um, að ekki hafi fengist nein reynsla fyrir því, að hreppsbúar hafi ekki viljað kjósa forðagæzlumenn. Þeir þekkja nú sjálfsagt til í sínum kjördæmum, en naumast annarstaðar. Þessi reynsla er, eins og eg sagði, þegar fengin. Þeir kannast við, að menn sé meira og minna óánægðir með lögin. En fyrst lögin þykja ótæk, því í dauðanum koma þeir þá ekki með tillögu um að nema þau úr gildi, heldur en að láta ónýt pappírslög standa?

Einhver var að tala um, að réttast væri, að stjórnin tæki málið til meðferðar. Það er algengt orðið, að fólkið heldur, að þingið geti alt, og þingið heldur svo, að stjórnin geti alt.

Eg get verið sammála háttv. 1. þm. N.-Múl. (B. H.) um það, að borgunin, sem forðagæzlumönnum er ætluð, sé of lág. En það kemur þessu frumv. ekki við. Þetta frumvarp á að eins að bæta úr göllum, sem valda því, að lögin geta ekki orðið framkvæmd.

Eg býst nú við, að óánægjan með þessi lög sé ekki eins algeng og þessir háttv. þingmenn virðast ætla. Eg hefi hér fyrir framan mig sýslufundargjörð úr Árnessýslu, þar sem farið er fram á, að lögunum verði breytt í líka átt og hér er ætlast til með þessu frumvarpi. (Guðm. Eggerz: Það er ekki mikið að marka). Það er að minsta kosti eins mikið að marka sýslunefnd Árnesinga og háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.).

Það getur verið, að það sé rétt, sem háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) sagði, að lögin geti ekki komið að því gagni, að þau geti afstýrt fjárfelli. En sé þeim framfylgt sæmilega; ætti þau að minsta kosti oft að geta komið í veg fyrir fjárfelli. Og þegar um tvent ilt er að velja, þá taka skynsamir menn venjulega það sem skárra er.

Þá hefir verið sagt, að þetta sé valdboð. Það er mikið rétt. Öll lög eru valdboð. Eg þekki að minsta kosti engin lög, sem ekki eru valdboð. Það er t. d. valdboð, að eg megi ekki stela.

Mér er ómögulegt að skilja í því, að menn skuli amast við því ákvæði, að sýslumenn skuli skipa forðagæzlumenn, þegar hreppsbúar gera ekki skyldu sína í því efni. Það er að vísu þrotaráð, en eg sé ekki betur, en að til þess verði að taka, þegar hreppsmenn vilja ekki ráða því sjálfir.

Svo hefir verið talað um, að það sé varhugavert að breyta nýjum lögum. En hvað mega þá lög vera gömul til þess að það megi fara að breyta þeim? Eg vil leyfa mér að skjóta þeirri spurningu til þeirra manna, sem alt af eru að þessu tali um það, að ekki megi breyta nýjum lögum.

Að svo komnu tel eg óþarft að tala meira um þetta. Eg vænti þess, að deildin hafi svo mikið við málið, þótt hún vilji máske ekki hafa svo mikið við flutningsmennina, að hún setji nefnd í það.