03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Benedikt Sveinsson:

Eg hlýt að taka í sama strenginn og háttv. þingm. V.-Ísf. (M. Ó.). Þótt rétt væri ef til vill að skerpa sektarákvæði botnvörpuveiðalaganna, þá hygg eg, að ekki sé hentugur tími til að gera það nú, þegar vér kunnum að þurfa að halda á tilhliðrun Englendinga í viðskiftum við Ísland, sakir ófriðarins.

Hitt atriði frumvarpsins — að nema úr gildi undanþágu þá, er íslenzk botnvörpuskip hafa haft til þess að fara um landhelgi, án þess að hafa hlerana innbyrðis — tel eg heldur ekki rétt að samþykkja. Þetta er ekki nema eðlileg og sjálfsögð undanþága, vegna þess, að íslenzku skipin eru þau einu skip, sem oft eiga löglegt erindi um landhelgina. Útlendingar eiga það sjaldnast. Það er alvanalegt á sumrin, að íslenzk botnvörpuskip fara út á fiskimið að kveldi og koma inn til hafnar aftur að morgni með afla sinn. Þau eiga því leið um landhelgina tvisvar í sólarhring. Það væri þeim talsverð tímatöf og erfiði að þurfa í hvert sinn að innbyrða hlerana, leysa vörpuna frá og setja hana upp í búlka. Eg verð því að leggjast í móti þessu ákvæði. Til þess að fella það burtu þarf ekki annað, en stryka út tilvitnunina til 9. gr., og mun eg síðar gera brtill. þar að lútandi, ef málið heldur lengra áfram.