03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Benedikt Sveinsson:

Eg get ekki séð, að það sé á miklum rökum bygt, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að við háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) höfum komist í mótsögn við sjálfa okkur. Við hyggjum, að ekki sé heppilegur tími til þess nú, eins og sakir standa, að herða á sektarákvæðum fyrir landhelgisbrot botnvörpunga, og þykir það ekki vel fallið til þess að halda vináttu við Englendinga, sem oss Íslendingum er þó full þörf á um þessar mundir. Íslenzkir botnvörpungar hafa eins og kunnugt er markað fyrir fisk sinn í Englandi. En ef enskir útgerðarmenn þættist vera áreittir með þessu tiltæki, þá væri þeim innanhandar að láta það koma í móti að spilla fiskmarkaði Íslendinga þar í landi. Af þessum ástæðum teljum við óheppilegt að fara nú að hækka sektirnar.

En að kaupa hylli Englendinga með því að nema úr gildi undanþágu, sem íslenzkir botnvörpungar hafa haft í mörg ár, og engar kröfur frá Englendingahálfu liggja fyrir um að afnema, það er alt annað mál, og með öllu ástæðulaust. Það er alt annað, að herða á kröfunum gagnvart Englendingum með laganýmæli, en að láta standa gamalt lagaákvæði, sem þeir og aðrir útlendingar eru orðnir vanir við, og dettur ekki í hug að fárast um nú, þó að þeim hafi ef til vill ekki þótt það allskostar gott í fyrstu. Og allra sízt væri nauðsyn á að nema þessa undanþágu Íslendinga úr gildi vegna útlendinga, þar sem þeir hafa ekki borið sig upp undan því. Eg get ekki séð, að það sé ófyrirsynju, að Íslendingum er veitt þessi undanþága, því að það er ómótmælanlegt, að íslenzkir botnvörpungar hafa margfalt oftar löglegt erindi um landhelgissvæðið en erlendu botnvörpungarnir. Tíma úr árinu þurfa íslenzkir botnvörpungar að fara um landhelgina á hverjum einasta degi, eins og eg tók fram áðan. Þeim væri það þessvegna til mikillar fyrirhafnar og óþarfa umstangs, ef þeim væri lagðar þær skyldur á herðar, sem þeir eru nú leystir undan.