08.09.1915
Efri deild: 55. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

125. mál, Minningarsjóður Herdísar og Ingileifar Ben.

Fyrirspyrj. (Magnús Pjeturss.):

Jeg þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. En ekki get jeg verið honum samdóma um, að fyrirspurnin hafi verið óþörf, vegna þess, að jeg hefði getað fengið allar nauðsynlegar upplýsingar hjá landritara og úr Stjórnartíðindunum. Enda hefi jeg alls ekki enn fengið fullnægjandi svör, að því er mjer virðist. Jeg hefi gjört fyrirspurnina vegna kjósenda í Vestfirðingafjórðungi, og nú geta þeir lesið svar hæstv. ráðherra í þingtíðindunum, en þar með er mínum tilgangi náð.

Hæstv. ráðherra sagði, að öll lán sjóðsins væru vel trygð, og er það vel farið, ef svo er, en jeg álít vafnsamt, eins og jeg áður tók fram, hvort það er rjett, að brúka opinbera sjóði sem banka. Hitt finst mjer alls ekki varhugavert, þótt fje sjóðsins hafi verið sett í innlend verðbrjef, en ekki í konungl. ríkisskuldabrjef.

Það er misskilningur hæstv. ráðherra, að mjer hafi verið vonbrigði að heyra það, að sjóðurinn gæti ekki tekið til starfa þegar í stað. Við því hafði jeg búist.

Jeg fjekk ekki glögga hugmynd um það af svari ráðherra, hvað mikið af fje sjóðsins væri handbært, eða með hvað löngum fresti fasteignaveðslánin hefðu verið veitt. Einmitt af því, að sjóðurinn er mestur í fasteignalánum, þá er útlit fyrir, að sá hluti hans sje alls ekki handbær. Að öðru leyti er jeg honum þakklátur fyrir svar hans.