16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Eggerz:

Mjer finst háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) ýta sjer nokkuð langt í skjóli eldhúsdagsins. Mjer finst auðskilið, að þegar háskólaráðið ekki vill gjöra neinar tillögur, þá hefir stjórnin algjörlega óbundnar hendur til veitingar embættisins. Einnig verður að líta á það, hvernig þetta embætti er til orðið. Allir flokkar hjer voru sammála um að stofna bæri þetta embætti, jafnvel helstu menn heimastjórnarflokksins. Nú þegar að allir flokkar telja nauðsynlegt að stofna embættið og það er fullráðið, hvers vegna ætti þá ráðherra að draga veitingu þess. Háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) ljet og þá skoðun í ljós í Ed., er talað var um að fresta veitingu embættisins, að hreinasta fjarstæða væri að stjórnin frestaði því, en framkvæmdi ekki strax það, er þingið vildi. Og stjórnin bar svo mikla virðingu fyrir vilja þingsins í þessu efni, að hún áleit það getsakir, að því hefði ekki verið full alvara. Og jeg gat ekki annað gjört en að veita embættið, enda er mikið spursmál, hvort í raun og veru hafi verið þörf á að leita álits háskólaráðsins um þetta, þar eð umsækjandi var að eins einn. En hefði jeg vitað vilja háskólaráðsins í þessu, þá hefði jeg farið algjörlega eftir honum, og hefði það lagt á móti því, að embættið yrði veitt, þá hefði jeg aldrei gjört það.