23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Eggert Pálsson:

Háttv. þm. Dal. (B. J.) mintist lítillega á fjárveitinguna, sem ætluð er til fyrirhleðslu í Þverá. En jeg hygg, að andmæli hans gegn henni muni hafa stafað af því, að hann er ekki búinn að kynna sjer fylgiskjölin, sem prentuð eru með nefndarálitinu, en ekki af því, að hann sje málinu í sjálfu sjer mótfallinn. Jeg hygg, að hann sje fæddur Rangæingur, og þykir mjer því ólíklegt, að hann vilji spilla þessu máli, jafnnauðsynlegt sem það er.

Jeg skal nú gjöra örstutta grein fyrir því, hvernig ætlast er til að þessi fjárveiting verði notuð. Vitanlega nægir hún ekki til að fullgjöra verkið, heldur til þess að gjöra ýmsar undirbúningsráðstafanir og framkvæmdir, áður en sjálf íhleðslan er gjörð. Það er þá fyrst tilætlunin, að ganga svo frá garðinum við Seljalandsmúla, að engin hætta geti stafað af vatnagangi úr Markarflóti austur með Eyjafjöllum, þótt Þverárfarvegurinn yrði teptur. Enn fremur þarf að ganga frá upptökum svonefndra Ála nálægt Stóra-Dímon, til að hindra það, að vatn leggist í þá og brjóti upp Austur-Landeyjarnar að austanverðu, eða rífi sjer farveg gegn um þær. Þetta er því fremur nauðsynlegt, þar sem það getur haft áhrif á afstöðu Rangæinga gagnvart málinu í heild sinni. Því ef þessi hluti sýslunnar, Eyjafjöll og AusturLandeyjar, verður ekki trygður fyrir vatnagangi, þá er hætta á því að hann vilji ekki leggja neitt til, og meira að segja spyrni á móti, að framrennsli Markarfljóts í Þverá verði heft.

En hins vegar verð jeg að taka í sama strenginn og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), um að fella niður styrk til Búnaðarfjelagsins. Það var ekki gjört með mínu samþykki, því að jeg taldi það varhugavert. Því þó að þessi styrkur sje ekki mikill fyrir hvern einstakan, þá er mjer kunnugt um, að hann hefir verið nokkur lyftistöng og hvatt menn til framkvæmda í margs konar búnaðarfyrirtækjum, sem menn annars hefðu látið ógjörð. Hættulegt er þetta einnig með tilliti til búnaðarsambanda þeirra, er stofnuð hafa verið, eins og háttv. þm. (S. S.) benti á, því að þau lifa á búnaðarfjelögunum í hreppunum að meira eða minna leyti. Ef þetta, að fella niður styrkinn, verður til þess að draga úr þeim, eða jafnvel stinga þeim svefnþorn, getur það haft skaðlegar afleiðingar, einnig með tilliti til búnaðarsambandanna.

Því hallast jeg fyrir mitt leyti að meðalvegi þeim sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir gjört að tillögu sinni, að styrkurinn, sem fjelögin hafa notið, haldist seinna árið, og er það hlutaðeiganda bending um, að hugsunin sje ekki sú, að nema styrkinn algjörlega burtu í framtíðinni, því ef hann er strikaður út bæði árin, þá sjest það hvergi, að meiningin sje að veita hann síðar. (Pjetur Jónsson : Það sjest í nefndarálitinu). Að vísu. En bæði er það, að nefndarálitið túlkar ekki beinlínis vilja þingsins, og svo verða það margir, sem alls ekki sjá nefndarálitið. En ef styrkurinn er látinn standa seinna árið, þá þyrftu menn að eins að líta í fjárlögin, en ekki að leita í öllum þingskjölunum eftir nefndarálitinu, til þess að fá að vita vilja þingsins í þessu efni.

En aðalástæðan fyrir því, að jeg tók til máls, var nú samt sem áður ekki þetta, heldur andmæli þau, er komið hafa fram gegn tillögu stjórnarinnar um að verja 18,000 kr. til rannsókna á járnbrautarlagningu austur í sýslur. Það hafa þrír háttv. þm. tekið til mála á móti þessu. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) hefir komið fram með brtt. um að fella niður þessa fjárveitingu, og fanst náttúrlega sem hann þyrfti að rökstyðja hana. Það þarf nú enginn að furða sig á þessu, þar sem hann hefir lýst því yfir hvað eftir annað, að honum hafi verið falin sú »Mission«, að sjá um að fjárlögin yrðu hallalaus í þetta sinn. Það er því ekki að undra, þó að hann ráðist á þetta, og ekki takandi tillit til þess, þó að hann sje á móti þessu framfarafyrirtæki, þar sem hann er á móti svo mörgum öðrum þarflegum fjárveitingum. Get jeg því látið mig litlu skifta, hvað hann hefir lagt til þessa máls, því að jeg hygg, að það hafi hvort sem er ekki áhrif á örlög þess, nema hvað hans eina atkvæði snertir.

Hann mintist á frumv. frá 1913 og hjelt að þessi 18,000 króna fjárveiting stæði í sambandi við það frumvarp. öllum gefur að skilja, að það er ekki líklegt, að hún grípi svo aftur fyrir sig. Ef svo ætti að vera, þá ætti það frumvarp að liggja hjer í loftinu. En það er ekki líklegt, að frumvarp á sama grundvelli sje fyrirliggjandi nú. Það vita og skilja allir. Öllum þeim, sem alvarlega kyntu sjer málið þá, var það ljóst, að það fje, sem þá bauðst til framkvæmda á fyrirtækinu, var ekki danskt, heldur þýskt fje. (Björn Kristjánsson: Í gegn um danskar hendur). Það er rjett, að mikils megandi danskir menn vildu rjetta fram höndina, til að útvega okkur fjeð. Og hygg jeg, að þó að við hefðum haft vit til þess að þiggja það fje þá, þá hefði oss ekki þurft að iðra þess nú, því eins og sakir standa nú, mun þýskt fje ekki vera á boðstólum til þarflegra framkvæmda hjer á landi. En ef það hefði verið þegið 1913, hefði það ekki verið aftur tekið.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) furðar enn fremur á því, að svona mikils fjár skuli þurfa til þessara rannsókna. En þar sem hann furðar sig á slíku, þá sýnir það að eins, hversu hugmyndir hans um slíkt stórvirki, sem hjer um ræðir, eru lágar og óljósar.

Að vísu er það rjett, að 1913 álitum við margir málið svo rannsakað, að óhætt væri að leggja út í það, vitanlega með rannsóknum samhliða framkvæmdum. En þá var tilætlunin sú, að nota kola- eða gufukraft til stafrækslunnar, en síðan hefir verið bent á, að betra kynni að vera að nota rafmagnskraft til að reka fyrirtækið. Þetta er ekki enn rannsakað til hlítar, og er eitt meðal annars sem rannsaka þyrfti. Við eigum svo marga fossa á þessari leið, að það dylst engum óhlutdrægum manni, að þörf er á, að þetta verði rannsakað til fullnustu.

Við vitum hversu mikinn hug útlendingar hafa á því, að eignast fossa hjer á landi og þá ekki síst á þessari leið. Og nú sem stendur hefir heyrst, að verið sje að gjöra tilraunir af útlendinga hálfu, til þess að ná eiguarhaldi á fossum í austursýslunum. Væri málið látið eiga sig, gæti farið svo, að þeim tækist að ná eignarhaldi á þeim vatnakrafti, er í fossunum býr á þessum stöð- um. En ef sá kraftur væri rannsakaður á vísindalegan hátt, og það kæmi berlega í ljós, hve mikils virði hann væri, þá mætti telja líklegt, að löggjafarvaldið sæi um, að hann gengi ekki úr höndum okkar.

En ef á hinn bóginn sannaðist við nánari rannsóknir, að ekki væru tiltök að ráðast í þetta fyrirtæki, og vjer í framtíðinni hefðum ekkert við fossaflið að gjöra, þá væri ekki rjett að hindra útlenda auðmenn frá því að hafa foss- anna not eða eignast þá. Væri föst niðurstaða fengin um það, að fyrirtæki eina og þetta gæti alls ekki þrifist hjer á landi, þá höfum við ekkert að gjöra með að eiga fossana, þá koma þeir ekki að notum í vorum höndum, og þá er ekkert í vegi, að menn fái að selja þá hverjum þeim, sem eitthvert verð vill fyrir þá gefa. En til þess að fá vissu sína um þetta alt, þarf að rannsaka málið, og það af sjerfróðum manni eða mönnum.

Að svo mæltu get jeg hlaupið yfir háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), því að hann talaði af lítilli þekkinga og enn minni sanngirni um málið. Hefir það ef til vill stafað meðfram af því, að þetta snerti hvorki Suðurmúlasýslu nje Snæfellnessýslu, hina einu landshluta, sem virðast hafa nokkra þýðingu fyrir hann, hvort sem það er af því, að hann hefir verið lögsagnari í báðum þessum sýslum eða af öðrum ástæðum.

En háttv. þm. Snæf. (S. G.), sem jeg tek meira tillit til, af því að hann er vitur maður og sanngjarn, talaði heldur ekki hlýlega í garð þessa fyrirtækis. En hann gat þess þó, og sömuleiðis háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), að þetta væri stærsta málið, er lægi fyrir þinginu. En þar sem svo djúpt er tekið í árinni, liggur einnig í þeim ummælum viðurkenning fyrir því, að það sje lang-þýðingarmesta málið. En sje það bæði stærsta og þýðingarmesta málið, þá á þingið ekki að fleygja því frá sjer, án þess að sinna því nokkuð. Slíkt yrði að telja algjörlega óforsvaranlegt.

Háttv. þm. Snæf. hjelt enn fremur, að enginn skaði væri skeður, þó að málið væri látið bíða nú, því að ekkert yrði fengist við það næsta áratug. Vitanlega verður það ekki gjört, ef þetta þing fleygir málinu, þessu lang stærsta og þýðingarmesta máli, frá sjer í kæruleysi og svo næsta þing og svo koll af kolli. Með því móti gæti liðið margir tugir ára áður málinu miði nokkuð áfram. En ef við verðum svo skynsamir, að horfa ekki í að veita þessar 18000 kr. nú, þá má búast við því, að á næsta áratug kæmist fyrirtækið á góðan rekspöl. Það er ekki þar með sagt, að landssjóður þyrfti að leggja fje fram til fyrirtækisins. Það mætti t. d. hugsa sjer að mönnum sýndist, að rannsöknunum loknum, að gefa einhverju fjelagi einkarjett til að hrinda fyrirtækinu áfram og reka það. (Björn Kristjánsson: Þýðingarlaust). Það er alls ekki þýðingarlaust. En hitt er vitanlegt, að ekkert fjelag kærði sig um þann einkarjett, ef fyrirtækið kæmi að engu gagni, eins og háttv. þm. K.-G. (B. K.) heldur fram. En það er einmitt það, sem rannsóknirnar eiga að færa okkur heim sanninn um, hvort gagns megi vænta af fyrirtækinu eða ekki, því staðhæfingu háttv. þm. K.-G. tjáir ekki að taka gilda, að órannsökuðu máli.

Háttv. þm. K. G. sagði, að þjóðin ætti heimtingu á að þetta mál yrði vel skýrt fyrir henni, áður en í það væri ráðist. Þar er jeg á sama máli. En það liggur í augum uppi, að í því er mótsögn, að vilja ekki að fram fari vísindalegar rannsóknir í þessu efni, en krefjast þess þó, að málið verði skýrt sem best. Því að málið verður ekki neitt skýrara, þó að hann riti um það af vanþekkingu sinni og óbilgirni. Því þó að hann sje annars mætur maður, þá hefir hann ekki meira vit á þessu máli en hver okkar hinna. Jeg býst ekki við því, að það skýri málið yfirleitt, t. d. að taka, þótt í nefndaráliti hans sje arðurinn af hverri kú reiknaður 12 kr. (Björn Kristjánsson: Leigan er 12 kr). Í nefndarálitinu stóð og stendur, að arðurinn sje þetta, að eins 12 kr. af hverri kú.

En þó að jeg geti ekki verið að eltast við hinar ýmsu staðleysur háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) í þessu máli eða hrekja bækling hans, sem hann las upp úr áðan — það mun án efa einhver mjer færari verða til þess, — þá skal jeg samt benda á eina augljósa staðleysu hans þar, þá sem sje, að engin þjóð legði járnbrautir, nema að land hennar lægi að öðrum löndum. Til þess að sýna, hversu fráleit þessi staðhæfing sje, þarf ekki annað en benda á England. Þar eru járnbrautir um landið þvert og endilangt, og liggur það þó ekki áfast við nein önnur lönd.

Þá var það, að háttv. 1. þm. G. K. (B. K.) þótti það ávanta, að ekki lægi fyrir hversu mikið fje viðkomandi hjeruð vilji leggja til. Þar til er því að svara, að það er ekki hægt að ætlast til að þau bjóði fram nokkurt fje að órannsökuðu máli, og enginn getur sagt, hvað kosta mundi járnbraut austur. Til þess að slíkt fjárframboð geti legið fyrir, þarf vitanlega rannsókn fullkomin að fara fram. Eina og besta ráðið verður því að rannsaka alt sem best, til þess að fá sem glegstar skýrslur yfir alt viðhorf málsins, hve mikið fyrirtækið muni kosta, hversu skuli reka það og hverjar líkur eru til að það beri sig. Þá fyrst er kominn tími til að spyrja hvað hjeruðin vilji leggja fram í þessu skyni.

Annars skal jeg ekki fara fleiri orðum um þetta atriði að þessu sinni. Býst hvort sem er við að það sje árangurslítið. En að lokum vildi jeg taka það fram, að jeg gjöri ráð fyrir og er sannfærður um, að sú kemur tíðin, að að mótspyrna háttv. 1. þm. G.-K (B. K.), bæði fyrr og síðar, á móti málinu, verði honum ekki til meiri vegsauka en mótspyrna hans í ritsímamálinu forðum.