30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Framsögum. (Pjetur Jónsson):

Jeg vona, að háttv. þm. hafi lesið nefndarálitið, með því að það er ekki .langt. Nefndin hefir ekki fundið ástæðu til að leggja til mikilla breytinga á frv., eins og það liggur nú fyrir eftir meðferð háttv. Ed. Þær brtt., sem nefndin leggur til að gjöra, eru að eins tvær. Hin fyrri lýtur að Fossvallarjómabúinu. Til þess hafði verið samþykt að veita kr. 380,76 hjer í deildinni, en Ed. hefir felt niður þann lið. Jeg skal skýra háttv. deild. frá því, hvernig það mál er vaxið. Þegar smjörverðlaununum var úthlutað í síðasta sinn, hafði þetta rjómabú skotist undan, af því að skýrslur frá því voru ekki komnar til stjórnarráðsins, þegar skiftingin fór fram. Hjer var að eins um mistök að ræða. Formaður var nýlega tekinn við forstöðu rjómabúsins og hafði ekki áttað sig á því, hve nær skýrslurnar skyldi senda, en sendi þær þó, og munaði að eins einni viku, sem liðin var frá því, að stjórnarráðið hafði skift verðlaununum. Ef stjórnarráðið hefði tekið eftir því, að skýrslur vantaði frá þessu rjómabúi, mundi það hafa beðið og gjört rjómabúinu aðvart, en það hafði ekki verið aðgætt. En er skýrslurnar komu fram, vildi stjórnarráðið ekki reikna upp aftur skiftinguna. Hlutaðeigandi skrifstofustjóri kom á tal við oss, sem sátum í fjáraukalaganefnd á síðasta þingi, og óskaði þess, að vjer tækjum þessa fjárveitingu upp í aukafjárlög; en eins og allir muna, voru fjáraukalögin þá feld, svo að ekkert varð úr þessu. Nú finst fjáraukalaganefndinni eftir atvikum sanngjarnt, að taka upphæðina í aukafjárlög, sjerstaklega af því, að ræða er um síðustu smjörverðlaun, sem veitt verða. Það þarf ekki að óttast. það, að þessi fjárveiting dragi nokkurn dilk á eftir sjer, hvorki frá einstökum mönnum nje öðrum smjörbúum.

Hin tillagan lýtur að endurgreiðslu á vörutolli af kjöti, sem sent hafði verið til útlanda, en síðan endursent hingað. Að þessari tillögu liggja alveg sjerstök atvik. Haustið 1913 tókst ekki að koma kjöti, sem utan skyldi flytjast, frá Vík, af þeirri ástæðu, sem oft vill verða þar, að ekki náðist í skip, Lá svo kjötið þar um veturinn, og voru menn í ráðaleysi. Verð hafði verið allgott á kjöti um haustið, en versnaði er á leið veturinn. Svo kom þar, að kjötið varð sent utan um vorið, en þá var kominn hiti í veðrið og fór að bóla á skemdum á kjötinu; því var ekki hægt að selja það fyrir viðunandi verð; þá var það ráða tekið að senda kjötið hingað til Reykjavíkur, því að hjer mátti fá sæmilegt verð fyrir það, enda var kjötið enn vel ætt. Nú vildi svo óheppilega til, sem þó enginn hafði gjört ráð fyrir, að samkvæmt vörutollslögunum þurfti að greiða toll af endursendingum. Þetta ákvæði vörutollslaganna var þó leiðrjett á þinginu 1914, einmitt um það leyti, sem þetta endursenda kjöt kom hingað aftur. Þannig er þá það mál vaxið. Og þótt háttv. Ed. sje hrædd við, að þetta kunni að draga dilk á eftir sjer, þá get jeg samt fullvissað háttv. deild um, að engin hætta er á því, að þetta verði nokkuð útdráttarsamt, með því að mjer er kunnugt um, að árið 1913 var mjög lítið endursent af saltkjöti.

Nefndin hefir nú samt sem áður ekki viljað taka upp sömu upphæðirnar, sem stóðu í frv., eins og það fór úr Nd., til þess að sýna, að hlutaðeigendur eigi ekki neina heimtingu á þessu fje, heldur hefir hún lagt til, að ganga til móta við háttv. Ed., þannig, að Fossvallarjómabúið fái 300 kr. í stað kr. 380,76, og Sláturfjelagið 450 kr. í stað 570 kr.

Eina hækkun hefir háttv. Ed. gjört í frv. frá því sem það var, þegar það fór úr Nd.; það er á eftirlaunum Skúla Thoroddsen. Nefndin í Nd. hafði á sínum tíma fallist á það, að færa eftirlaunin upp eftir annari reglu en þau höfðu verið reiknuð eftir áður, það er að gengið væri út frá hærri embættislaunum nettó, heldur en verið hafði, þegar eftirlaunin voru ákveðin. Þessa hækkun vildi nefndin — og fjelst Nd. á tillögu hennar — gjöra frá 1. jan. 1914, en þar með skyldi þá niður falla það í eftirlaununum, sem vangoldið kynni að vera

í þau 18 til 19 ár, sem liðin voru frá því, að þau voru ákveðin. Þessa tillögu gjörði nefndin í samráði við rjettan hlutaðeiganda. Nú hefir Ed. hækkað þenna lið um 200 kr. á ári til uppbótar fyrir það, sem hlutaðeigandi hefir mist í eftirlaunum frá því að þau voru ákveðin. Nefndin hjer í Nd. hafði reiknað eftirlaunin 40 kr. hærra en vera átti eftir reglunni. Ed. hefir því aukið við 160 kr. Vill nefndin hjer ekki gjöra þessa breytingu Ed. að deiluefni, heldur láta þar við sitja.

Nú sje jeg, að fram er komin brtt. á þgskj. 523, frá háttv. þm. N.-Þ. (B. S.), þar sem farið er fram á að Skúla Thoroddsen sjeu veittar hjer að auki í uppbót 1800 kr., í eitt skifti fyrir öll, eða til vara 1200 kr.

Mjer þykir það mjög leitt, að þessi tillaga skuli hafa komið fram. Ekki af því, að jeg vilji ekki unna hlutaðeiganda fullrar sæmdar í þessu máli, heldur af hinu, að það varð að samkomulagi milli Skúla og fjárlaganefndarinnar, að hann gengi að tillögum hennar og ljeti allar frekari fjárbeiðnir niður falla. Jeg get því ekki fallist á þessa brtt., og mun greiða atkvæði á móti henni, enda býst jeg við, að hún sje ekki komin fram að tilhlutun Skúla Thoroddsen.