12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

30. mál, vörutollaframlenging

Ráðherra:

Jeg get verið mjög fáorður, enda er þetta frumv., eins og háttv. þm. sjá, hvorki langt nje margbrotið.

Á þinginu 1912 var það nauðsynlegt, að setja ný tollög, vegna bannlaganna, er þá voru að ganga í gildi, og þá voru lögin um þennan svo kallaða vörutoll samþykt. Var áskilið, að þau skyldu ekki gilda lengur en til loka þess árs, sem nú stendur yfir. Á þinginu 1912 mættu þessi lög nokkurri mótspyrnu, og margir eru enn, sem telja þau ekki heppileg að öllu leyti. Sumir halda því fram, að þau komi ranglátlega niður á menn, og þá er eigi síður kvartað um, að innheimtan sje erfið. En hvað sem því liður, vill núverandi stjórn leggja til, að lögin verði framlengd næsta fjárhagstímabil. Ef átt hefði að breyta þeim, eða ef eitthvað nýtt hefði átt að setja í þeirra stað, þá hefði það kostað mikla rannsókn og langan undirbúningstíma. En vegna þess hve tíminn var naumur orðinn, er núverandi stjórn tók við völdum — en fráfarandi stjórn ekki tekið málið til athugunar svo að jeg viti til, sá hún sjer ekki fært, að inna þann undirbúning af hendi. Jeg veit ekki hvað þinginu þóknast að gjöra í þessu efni, en það tel jeg ekki ráðlegt, að farið verði nú að krukka í lögin meira en orðið er, og vafasamt að það verði til bóta.