21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

30. mál, vörutollaframlenging

Sveinn Björnsson :

Jeg vil ekki láta hjá líða að standa upp, til þess að láta í ljós álit mitt á, stefnu frumvarps þessa. Er jeg í því máli á sömu skoðun sem háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). Mun jeg greiða atkvæði með því hjer í deildinni, er þar að kemur, með því að jeg álit, sem stendur, að ekki sje hægt, að fara aðra heppilegri leið, enda hygg jeg að flestir munu vera mjer sammála um það.

Jeg get alls ekki verið samþykkur stefnu þeirra laga, sem ganga í þá átt, að slá sjer algjörlega á óbeinu skattana. Það er fullsýnt og sannað, að þeir eru að öðru jöfnu miklu lakari. Hið eina gagn, sem þeir gjöra, ef gagn skyldi kalla, er það, að þeir gjöra stjórninni oft hægra fyrir um það, að fara í vasa manna og ná fje þaðan. En reynslan hefir sýnt, að sú aðferðin, sem notuð er með óbeinu sköttunum, verður landsmönnum ætíð dýrari, vegna þess m. a., að kaupmenn, sem að jafnaði greiða tollinn fyrir fram í peningum, reyna að halda sjer skaðlausum af vaxtatapi, með því að leggja það á vöruna, og auka-ábata um leið.

Jeg vil og einnig taka undir það með háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), að skora á stjórnina að undirbúa málið sem allra best, til þess að hún gæti stansað á beinu skattaleiðinni og halda hina leiðina, sem giftusamlegri mun verða.