03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

51. mál, sparisjóðir

Sigurður Gunnarsson:

Jeg stend upp út af því atriði í ræðu háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.), er hann hjelt því fram, að hvergi úr kjördæmum landsins hefðu komið fram tillögur um þessi lög, er gengju í sömu átt og þetta. Jeg verð að leyfa mjer að mótmæla þessu, og skírskota jeg til þess, að tveir þingmálafundir í Snæfellsnessýslu ályktuðu, að æskilegt væri, að tillögur, er færu í sömu átt og þetta frumvarp, væru bornar fram á þessu þingi.

Þá heyrðist mjer og að háttv. þingm. teldi svo, að eftirlit með sparisjóðum væri nægilegt um land alt. Jeg verð nú að leyfa mjer að efast um það, að hann sje svo nauða-kunnugur öllu því, er lýtur að sparisjóðum, hvar sem er á landinu, að hann geti fullyrt þetta. Það verður að gá vel að því, að meira þarf til en að ráðvandir menn sjeu í, stjórn sparisjóða. Það kemur svo afar margt til greina við það starf, að ráðvendnin ein er ekki einhlít. Og jeg verð að láta þá skoðun mína í ljósi, að mjer þykir harla ólíklegt, að alstaðar, í öllum hjeruðum landsins, sje þeim mönnum á að skipa, sem færir sjeu til stjórnarstarfa við sparisjóðina, svo að verulega vel megi við una. Og þarf þar alls ekki að koma nein prettvísi til greina. Og mikið má það vera, ef þeir háttv. þm., sem mest hamast á móti eftirlitinu, eru færir um að fullyrða að reglugjörðir sjóðanna sjeu einhlítar, einkum ef svo skyldi reynast, að þær sjeu meira og minna brotnar. Það getur verið ýmislegt áfátt við meðferð sjóðanna, þó að enn hafi ekki neitt slys hlotist af. Jeg verð að halda mjer fast við þá skoðun, er jeg hafði á síðasta þingi, sem fellur saman við það, að tillaga minsta hl. í þessari nefnd (M. Ó) nái fram að ganga. Jeg hygg, að það muni verða happasælast til frambúðar, og mikið er í húfi, ef illa fer, og því aldrei of varlega farið. Jeg mun ekki að þessu sinni fara að rekja allar þær ástæður frekar, er mæla með allsherjar eftirliti. Slíkt væri ekki til annars en að eyða tímanum, en jeg vona, að það megi vera öllum ljóst, að slíkt allsherjar eftirlit er nauðsynlegt.