19.07.1915
Efri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

27. mál, ullarmat

Framsögumaður (Jósef Björnsson) :

Eins og háttv. deild hefir sjeð á nefndarálitinu í þessu máli, hefir nefnd sú, sem kosin var til að athuga frumvarp það, sem hjer liggur fyrir, komist að þeirri niðurstöðu, að ráða háttv. deild til að samþykkja frumvarpið, að vísu ekki óbreytt, en með litlum breytingum, að því er efni þess snertir. Skal jeg nú drepa á það, sem mest hefir stuðlað að því, að nefndin hefir ráðið háttv. deild til að samþykkja frumvarpið. Það er í fyrsta lagi, að nefndin er sammála um, að verkun á íslenskri ull sja ekki svo góð, sem hún þyrfti að vera, til þess að ullin gæti verið í því verði, sem æskilegt væri. Um þetta efni hafa ekki heldur verið skiftar skoðanir meðal landsmanna, að því er nefndinni er kunnugt. Hins vegar hafa verið skiftar skoðanir um það, hvernig eigi að ráða bót á þessu. Hefir verið bent á tvær leiðir til þess. Önnur leiðin er sú, að menn reyni með frjálsum samtökum, að koma því til leiðar, að verkunin á ullinni batni; að þessu hafa kaupfjelögin stuðlað, og hefir þeim orðið nokkuð ágengt, en þó allt of lítið. Hin leiðin er sú, að fyrirskipa með lögum að öll ull, sem ætluð er til útflutnings, skuli flokkuð og metin. Með því er trygging fengin fyrir því, að ull verði yfirleitt vandaðri og betri, og fyrirbygt að kaupmenn kaupi ljelega ull. Það má segja að þessi leið sje ófrjálslegri en hin leiðin, en reynslan hefir sýnt, að það vinst ekki á þeirri leið eins fljótt fram og æskilegt væri, og margir landsmenn eru þeirrar skoðunar, að nauðsyn beri til að fyrirskipa ullarmat. Nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að þessa leið eigi að fara, og er ekki hrædd við, að mæla með henni, af því að málið hefir legið fyrir ullareigendum til athugunar og umsagnar. Og þótt að eins hafi komið óvíða frá óskir um, að ullarmat verði lögleitt, hafa hins vegar hvergi komið fram andmæli gegn því. Á 10 þingmálafundum hafa komið fram óskir um, að þingið samþykti lög í þessa átt, eða fundirnir hafa talið sig því meðmælta, en á öðrum þingmálafundum hefir þessu máli ekki verið hreyft, enda þótt neðri deild hefði á síðasta þingi samþykt þingsályktun um, að skora á stjórnina, að leggja frumvarp um þetta efni fyrir þingið. Nefndin mælir því með því, að frumvarpið verði samþykt, enda þótt hún álíti þessa leið, ekki eins frjálslega og hina leiðina. Jeg skal taka það fram, að frumv. er sæmilega undirbúið. Að því hefir unnið sá maður, sem færastur var til þess, Sigurgeir Einarsson ullarmatsmaður. Enn fremur hefir það verið undirbúið af Búnaðarfjelaginu, og nokkur drög voru lögð til þess á síðasta Alþingi. Stjórnin hefir því haft málsatriðin frá öllum þessum stöðum og gjört frumvarpið eftir því.

Nefndin hefir lagt til, að nokkrar breytingar verði gjörðar á frumvarpinu, og er þær að finna á þingskjali 50. Um nokkrar af þessum breytingum er það að segja, að þær eru að eins orðabreytingar, sem ekki er ástæða til að eyða mörgum orðum um. Að eins fáeinar eru efnisbreytingar, og mun jeg víkja nokkrum orðum að þeim. Er þá fyrst 3. brtt. við 4. gr., um það, að ullarmatsmenn skuli vera búsettir sem næst miðju þess umdæmis, sem þeir hafa til yfirsóknar. Með þessu mælir, að ullarmatsmönnum verður þá gjört hægra fyrir að rækja starf sitt, en á hinn bóginn er þetta ekki svo einskorðað, að þeir megi ekki búa á öðrum stöðum.

Þá er 5. brtt. við 7. gr. um, að aftan við greinina bætist „nje kaupa til útflutnings, hvorki fyrir sjálfa sig nje aðra“. Þessi viðbót miðar að því, að sem mest trygging sje fyrir því, að allt mat á ull sje hlutlaust, og ætti það að fyrirbyggja alla tortryggni gegn matsmönnunum. síðustu breytingarnar eru smávægilegar. 6. brtt. við 9. gr. er um að hækka lágmark sektaákvæðisins úr 100 kr. upp í 200 kr., og vill nefndin leggja það til, til þess að freistingin verði því minni, til þess að skjóta sjer undan að láta meta alla ull, sem út á að flytja. Síðasta brtt., um að lögin nái gildi í janúar, í staðinn fyrir í apríl, stafar af því að nefndin áleit heppilegra, að lögin gengi í gildi í ársbyrjun 1916, til þess að þau gætu komið til framkvæmda nægilega snemma á því ári.

Jeg hefi þá gjört grein fyrir breytingartillögum nefndarinnar, og fyrir ástæðum hennar fyrir því, að lögin verði samþykt, og mun jeg ekki fara fleiri orðum um málið að sinni, fyrr en umræðurnar hafa gefið ástæðu til þess.