05.08.1915
Neðri deild: 25. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

82. mál, Stykkishólmsvegur

Flutningsm. (Sigurður Gunnarsson):

Jeg hefi talið mjer skylt, að flytja þetta litla frumv. eftir ósk sýslunefndar í Snæfellsnessýslu. Á tveimur fundum hennar, bæði 1914 og 1915, hefir verið farið fram á að fá þá breytingu, sem hjer er um að ræða.

Með þessu litla frumv. er ekki farið fram á mikið, einungis það, að vegurinn frá Borgarnesi að Stykkishólmi sæti sömu meðferð og allir aðrir þjóðvegir landsins. Hjer er því einungis farið fram á, að 1. málsgr. 18. gr. laga um vegi 22. nóv. 1907, sje feld burtu. Hún hljóðar svo:

»Hlutaðeigandi sýslufjelög skulu kosta viðhald þjóðvegarins frá Borgarnesi til Stykkishólms, sem að undanförnu«.

Nú er í frumv. farið fram á, að þessi málsgr. sje feld í burtu. Ekki neitt annað. En samkv. 16. gr. sömu laga verða þó sýslufjelögin að sjá um viðhald vegarins að miklu leyti eftir sem áður. En fáist breytingin, er því samt náð, að fullkomið samræmi kemst á milli þessa vegar og annarra þjóðvega.

9. sept. 1899 voru samþykt lög, þar sem ákveðið var, að leggja skyldi veg frá Borgarnesi til Stykkishólms á kostnað landssjóðs, samkvæmt reglum þeim, er gilda um þjóðvegi, og skyldi viðhald vegarins kostað af hlutaðeigandi sýslum, jafnóðum og vegurinn yrði lagður. En síðan var gjörð breyting á þessu með vegalögunum 22. nóv. 1907. Í 8. tölulið 3. gr. þeirra laga er vegurinn frá Borgarnesi til Stykkishólms tekinn upp í tölu annarra þjóðvega landsins En í 1. málsgr. 18. gr. sömu laga var þó þessu gamla ákvæði haldið, að hlutaðeigandi sýlufjelög kosti viðhald þjóðvegar þessa, sem að undanförnu.

Nái frumv. fram að ganga, hlýtur þó viðhald þessa þjóðvegar að miklu leyti að hvíla á sýslufjelögunum, eins og viðhald annarra þjóðvega, því samkvæmt 14. gr. laganna 22. nóv. 1907 nyti hann þá sömu rjettinda og aðrir þjóðvegir, þar sem torfærur yrði þá bættar með vegaruðningi og brúargjörð á kostnað landssjóðs. Það er þá þetta eina, sem græðist við breytinguna. Allir sjá því; að; hjer er ekki mikið í húfi; en fyrst að vegurinn er þjóðvegur; þá er eðlilegt, að sama regla gildi um hann og aðra þjóðvegu landsins.

Jeg ætla óþarft að lengja umræður um þetta mál frekar, enda get jeg vísað til hins ítarlega erindis sýslumannsins í Snæfellsnessýslu er legið hefir

frammi í lestrarsalnum. Jeg sting upp á því, að málinu sje vísað til veganefndar.