04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Bjarni Jónsson:

Tillaga mín, sem fram er komin á þgskj. 764, er ekki annað en leiðrjetting á hinu skjalinu, sem jeg leyfi mjer þá hjer með að taka aftur.

Það, sem þessi brtt. mín fer fram á, er það, að lagðar verði auka-símalínur til Skarðs og Staðarfells. Þetta er borið fram hjer í deildinni fyrir margítrekaða beiðni Dalamanna: Það hafa nú verið feldar tillögur frá mjer um að veita mönnum í nokkrum hreppum fyrir vestan styrk, til þess að leita læknis í lífsnauðsyn, og því ber jeg nú þetta fram. Það hljóta allir að skilja það, að það er ekki lítill hægðarauki fyrir menn, sem langt eiga til læknis, að geta fengið að vita hver í einni sveit, hvern af þremur læknum hægast sje að ná í. Þarna hagar nefnilega svo til, að nærri því jafn erfitt er að sækja alla þrjá læknana, þann í Búðardal, í Reykhólahjeraði og læknirinn á Hólmavík. Það væri því mjög mikill ljettir að því, að fá þessar símalínur, einmitt af þessum ástæðum. Þingið ætti því að sjá að sjer og samþykkja þessa tillögu mína, þótt það vildi ekki veita hreppunum styrkinn, sem farið er fram á við 2. umr. fjárlaganna um daginn. Jeg trúi því ekki, að menn verði svo ósanngjarnir, að vilja láta þessa hreppa gjalda þess, að þeir liggja ekki í þeim sveitum, þar sem sími liggur um. Auðvitað býst jeg ekki við, að ráðist yrði í að leggja þessar símalínur á þessu næsta fjárhagstímabili, en það væri samt mikið unnið fyrir hreppana, ef þeir hefðu vissu fyrir því, að þessar símalínur yrðu látnar ganga fyrir öðrum, og framkvæmdir yrðu að ráðast í þessu efni. Það er auðvitað, að þessar línur verða ekki lagðar, nema löglegt gjald komi á móti frá sveitunum, sem hlut eiga að máli. Jeg býst varla við því, að þessar línur yrðu mjög mikill kostnaðarauki fyrir landið. Símalagningin þyrfti ekki að verða svo mjög dýr, því að vel mætti nota stálþráð í staðinn fyrir eirþráð; en það er mjög mikill munur á kostnaði.

Mjer hefir reiknast svo til, að leiðin, sem báðar línurnar ættu að liggja um, sje um 40 stikuþúsundir á lengd, eða ef menn skilja betur grískuna, þá um 40 kílómetrar.