04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Björn Hallsson:

Það, sem aðallega kom mjer til að standa upp, eru brtt. háttv. þm. Dal. (B. J.) , á þgskj. 688 og 764. Mjer finst þær vera út í loftið, eða að minsta kosti sá liður þeirra, sem fer fram á, að lagðar sjeu tvær aukalínur í Dalasýslu. Ritsímanefndin hafði landssímastjórann á fundi með sjer í morgun, og hann gat engar upplýsingar gefið nefndinni um þessar línur; um þær hefir engin áætlun verið gjörð. Það er því ekki sjáanlegt að þær yrðu lagðar fyrst um sinn og því tilgangslaust að setja þær inn í lögin. Auk þess er hætt við, ef brtt. þessar verða samþyktar hjer í deildinni, að þá geti það orðið frv, að falli í háttv. Ed. En það vil jeg með engu móti. Mál þetta er alveg óundirbúið, og við höfum ekki minstu hugmynd um, hvað línur þessar muni kosta. Vildi jeg því stinga upp á því, að háttv. flutningsmaður (B. J.) taki brtt. þessar aftur. Annara mun jeg greiða atkvæði á móti þeim, því jeg sje ekki betur en að þær sjeu alveg óþarfar, en stofni á hinn bóginn frumvarpinu í hættu. Annars er það ekki í fyrsta sinn, að þessi háttv. þingmaður kemur með brtt., sem hafa við lítil rök að styðjast.

Þá stingur háttv. sami þm. (B. J.) upp á því, að 2. gr. frv. falli burtu, nefnilega loftskeytastöðin í Reykjavík. Jeg tók það fram við 2. umr. þessa máls, að mjer væri þessi stöð alls ekkert kappsmál, þótt jeg gjörði engan ágreining um hana í nefndinni, af því talsverð líkindi eru til, að hún geti komið að miklu liði fyrir sjávarútveginn. Jeg hafði þá skoðun í fyrra, og hefi hana enn, að við ættum helst ekki að reisa slíka stöð, nema hún drægi til útlanda. En jeg vil þó ekki sitja í vegi fyrir, að hún sje bygð í þessu formi, af því ætlast er til, að hana megi nota að mestu leyti þegar sterkari stöð verður reist hjer. Einungis yrði þá að bjargast við þessa litlu stöð í bráð, en peningunum ætti ekki að vera eytt til einskis í þessa byrjun.

Jeg verð eindregið að leggja á móti brtt. háttv. þm. Dal. (B. J.). Jeg sje ekki, að þær gjöri málinu neitt gagn, en geta orðið til að spilla framgangi þess.