31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

109. mál, skipun dýralækna

Framsögum. meiri hlutans (Bjarni Jónsson):

Jeg er á sömu skoðun og háttv. framsögum. minni hl. (G. H.) um það, að langar ræður muni ekki gjöra mikið gagn, og síst með því, að rekja upp alt það, sem sagt var við síðustu umræðu. En þar sem hann tekur nú aftur upp þessar uppáhaldssetningar sínar, verð jeg að svara honum fáum orðum.

Hann talaði um, að uppgötvanir dýralækna hjer við ýmsum sjúkdómum í kvikfjenaði, væru jafnvel ólíklegri en að jeg gjörði bókarlaus einhverjar nýjar málfræðilegar uppgötvanir í klassískum fræðum. Jeg skal nú játa, að það er ekki óhugsanlegt, að menn gætu gjört uppgötvanir í því, sem menn kunna utan að. En hjer er ólíku saman að jafna, því að dýralæknirinn er ekki bókarlaus. Náttúran er hans bók, því að hann hefir sjúklinga, sem hann getur gjört tilraunir á með meðul. Þurfi nákvæmari rannsókna við, hugsa jeg að dýralæknar hjer gætu leitað til Háskólans.

Þar sem háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) sagði, að orð mín væru reykur, þá sje jeg ekki þörf á, að hrekja það; það er eins og hver önnur fullyrðing, eins og kerlingarnar rifust um: »Klipt var það, skorið var það«. Jeg get með sama rjetti, eða öllu betra rjetti, sagt, að hv. þingm. (G. H.) hafi ekki annað gjört en að vaða elginn. Það er vitanlega rjett, að 4 dýralæknar geta ekki skoðað kjöt á öllu landinu, en orð hans um Austurland, í því sambandi, voru tóm þoka. Vjelbátaferðir milli fjarða þar eru mjög tíðar, og ekki þarf annað en samkomulag milli verslananna um slátrun, til þess að hægt sje að koma þessu í kring. En þetta var nú ekki aðalatriðið í minni ræðu. Skraf háttv. þingmanns, um að hjeruðin ættu að borga helming launanna, er ósköp skiljanlegt, eftir því sem ná er ástatt. Það er nú einu sinni svo, að svona andi er kominn inn í þingið. T. d. fá sumar sýslur ókeypis síma, en aðrar verða að gjalda stórfje til þess. Það væri rjett eftir þessari reglu og öðru rjettlæti, að Austurland ætti að borga þennan embættismann að hálfu, en Suður- og Norðurland að fá hann ókeypis. Og háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) er ekki eftirbátur annara þingmanna í þessu. Sama reglan gildir um dýralæknana og um manndýralæknana. Ef hjeruðin eiga að borga dýralækni, þá ættu þau líka að borga manndýralækni.

Hjer er um ungan mann að ræða, er landið hefir kostað til námsins, einmitt í þessu skyni. Það er ekki um neina þoku að ræða, nema þá frá hv. 1. þm. Húnv. (G. H.), en hann hefir ekki getað breitt hana svo þjett yfir, að ekki sjáist í gegnum hana, því að málið er svo ljóst fyrir öllum.

Hann efaðist um, að Magnús Einarsson mundi borga sig. Jeg skal geta þess, að þessi maður hefir á síðast liðnu ári haft 400 sjúklinga. Þótt jeg geti ekki sagt með vissu, hve mörgum hann hefir bjargað frá bana, þá get jeg fullvissað háttv. þingm. um, að hann hefir vel borgað landinu þau laun, er hann fær. Þegar þess er gætt, að hestleigan er 2–3 kr. á dag; þá er ekki lengi að tapast í launin, þegar menn geta ekki leitað til læknisins og fengið bót á því, sem að hestunum gengur, hvort sem þarf nú að skera upp hóf eða því um líkt.

Jeg skal svo ekki fjölyrða þetta; vil endurtaka það, að málið liggur svo skýrt fyrir, að allir hljóta að greiða því atkvæði, nema kann ske háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.), sem hefir ofið svo óskiljanlegri lærdómsþoku um það; en jeg vona, að háttv. þingmenn dreifi henni og samþykki frumvarpið.