04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

109. mál, skipun dýralækna

Framsögum. meiri hl. (Bjarni Jónsson):

Þetta mál var tekið út af dagskrá, þegar það var hjer síðast til umr., af því að það þótti rjettara að laga, það betur, úr því farið var að hræra við því á annað borð. Það voru sem sje í þessum lögum gömul ákvæði frá landshöfðingjatímabilinu, og hefir þeim ákvæðum nú verið kipt í það horf, er á við nútímann. Að jeg ekki gjörði þetta þegar í stað, stafaði mest af leti minni, en þegar jeg svo heyrði óskir manna í þá átt, þá vann jeg bug á henni og sneið burt þessa tilvitnun í gamla aukatekjureglugjörð o. fl. þ. h., og hefi jeg fengið vitnisburð hæstv. ráðherra um það, að nú sje ekkert framar að athuga við frumv. frá þessu sjónarmiði, og bið jeg nú háttv. deild að fallast á þetta, enda vona jeg, að ekki beri mikið á milli, þar sem áður hefir verið þrautrætt bæði um laun dýralæknanna og fjölda þeirra. Að eins skal jeg geta þess, að um fjöldann eru þó ekki allir sammála, eins og brtt. frá háttv. þm. Snæf. (S. G.) á þgskj. 686 sýnir. Hún fer sem sje fram á það, að hafa dýralæknana fjóra, einn í hverjum landsfjórðungi. Við, sem að þessu frumvarpi stöndum, höfum ekki bundið okkur neitt í atkvgr. um þessa tillögu, og jeg teldi það fyrir mitt leyti rjettast, að það væri nú þegar ákveðið, að þeir skyldu vera 4, því að það líður hvort sem er ekki á löngu, þangað til Vestfirðir vilja fá sjerstakan lækni handa sjer og maðurinn verður til. Væri þá ekki annað en aukin fyrirhöfn, að þurfa þegar aftur að fara að breyta lögunum.