12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

139. mál, fjölgun ráðherra

Bjarni Jónsson :

Jeg skal ekki hafa langan pistilinn. Jeg vil að eins taka tvent fram. Í fyrsta lagi er það að eins hlægilegt, að hafa ráðherrana ekki nema tvo, úr því að breytt er til á annað borð. Jeg sje ekki, að tveir ráðherrar sjeu á nokkurn hátt betri en einn, og sjerstaklega þar sem gjört er ráð fyrir, að annar sje forsætisráðherra. Hinn ráðherrann verður ekki annað en »inutile pondus terræ« aftan við hann. Það er engin trygging fyrir því, að hann verði ekki beittur gjörræði, af þeim, sem meira má. Ef ráðherrunum verður fjölgað, eiga þeir að sjálfsögðu að verða þrír. Það verður að geta staðið í odda með þeim, til þess að þeir hafi eitthvað að þýða.

Þá er hitt atriðið. Eins og menn vita, hefir ný stjórnarskrá verið staðfest. Þvi fara í hönd nýjar kosningar. Þetta mál á því að sjálfsögðu að koma fyrir kjósendur, úr því að dyrnar eru opnar til þess. Það er engin ástæða til að hraða því svo, að þeim gefist ekki kostur á að láta í ljóa skoðun sína á því. Og því síður er ástæða til að hraða þessu máli, þar sem öll líkindi eru til, að núverandi hæstv. ráðherra (E. A.) hafi völd fram yfir næstu kosningar, eftir því liði að dæma, sem hann hefir á að skipa; en hann er, eins og kunnugt. er, einhver mesti verkmaður, sem við þekkjum, og að því skapi ósjerhlífinn. Jeg ætla, að það sje fullkomlega rjett, sem háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) sagði um það atriði.

Jeg hygg, að best væri, ef hæstv. ráðherra vildi taka þetta frumv. aftur, og leggja það fyrir næsta þing eftir nýafstaðnar kosningar.

Jeg sje, að einu úr hans fjölmenna flokki, háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.), hefir sömu skoðun á þessu máli og jeg. Mjer er það mikil ánægja, einkum þar sem jeg get búist við, að hann fari nú að snúast á áttinni, og að þeirri hörðu átt linni, sem nú hefir gustað úr um hríð.