06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

11. mál, verðtollur

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg get af ýmsum ástæðum tekið mjer það ljett, að svara hv. framsögum. (B. g.). Sumpart er athugasemdum haus svarað í nefndaráliti mínu, og sumpart eru aðfinslur hans bygðar á misskilningi.

Jeg get þó ekki gengið fram hjá því atriði í ræðu hans, þar sem hann ber brigður á það, að flytja mætti glysvarning til landsins undir heitinu »grove Jærnvarer«. Það er ekki til neins að neita því, því að það hefir verið margsinnis leikið, þótt jeg auðvitað neiti því ekki, að það er altítt að flytja steypujárn til landsins umbúðalaust. Og jeg held ekki, að mönnum þyrfti að verða skotaskuld úr því, að vefja alldrjúgum silkistranga utan um skófluskaft svo að lítið bæri á.

Jeg get um það í nefndarálitinu, að verðtollurinn leggist þyngra á matvöru. Auðvitað er nokkur mismunur, eftir því hve varan er dýr, en munurinn á tollunum er ekki nálægt því eins mikill og háttv. framaögum. (B. K.) vildi halda fram. En jeg get nefnt önnur dæmi. Tökum t. d. hjólhest, sem kostar 100 kr. Eftir núgildandi lögum er borgað af honum 50 au., en eftir verðtollsfrv. 3 kr.

Jeg skal ekki tefja menn á löngum samanburði á þessu, en jeg hefi tekið mörg dæmi úr skýrslunum, sem samdar voru 1912, og enginn hefir vefengt enn, um hvernig þessir tollar koma niður. Þó skal jeg nefna t. d. kartöflur, segjum 5 kr. virði. Samkvæmt vörutollinum á að borga af þeim 2 kr., en samkvæmt verðtollinum að eins 15 aura. (Björn Kristjánsson : 20 aurar nú). Jæja, er þó búið að færa það í lag; það voru 2 kr. áður. Yfir höfuð þá getur þungi vörunnar ekki sagt til þess, hve hár tollurinn á að vera. Það þarf ekki að vera að sýna fram á það með mörgum upptalningum; það stríðir á móti heilbrigðri skynsemi. Það vita það allir, að verðmætið fer ekki eftir þunga vörunnar.

Háttv. framsögum. (B. K.) þóttist ekki skilja þetta, en það vita það allir aðrir. Þá gjörði hann mikið úr því, hve erfitt mundi vera að sanna það, og hver æti að sanna það, hverjum sök væri á gefandi, ef vara væri tilfærð með of lágu verði í kaupreikningi, og hvort það væri í undandráttarskyni. Jeg get nú ekki fundið erfiðleikana á þessu. Það verður auðvitað að hlíta hinum almennu reglum um sönnunarskyldu. Ef yfirvöldin geta ekki sannað það á kaupmanninn, að hann eigi sök á þessu, þá verður hann auðvitað að teljast sýkn saka. Þetta er alveg sama reglan og í svo mörgum öðrum atriðum um sönnunarskylduna. Honum þótti það heimskulegt, að ætlast til þess, að hægt væri að sanna undandrátt. En jeg get ekki búist við því, að verslunarstjettin og tollheimtumenn landsins sjeu svo þekkingarsnauð, að þau komist ekki fram úr öðru eins, sjeu svo ókunnug um algengt vöruverð út um heiminn.

Þá talaði háttv. framsm. meiri hl. (B. K.) um það, að hægt væri að falsa kaupreikninga. Jeg efast alls ekki um það. En háttv. framsm. (B. K.) gleymir alt af að taka samanburðarliðinn. En hann vill aldrei taka þetta brjóstbarn sitt til samanburðar, fullyrðir bara út í bláinn, að ekki verði farið í kring um þau lög. Og þótt jeg hafi ekki farið langt út í það, að sýna fram á hversu það er auðvelt, þá er það ekki af því, að dæmin sjeu ekki nóg til, heldur fór jeg svo mildilega með hann, vegna þess, að jeg vildi ekki vera að tefja tímann með því, að hrekja staðhæfingar hans, sem ekki eru annað en órökstuddar fullyrðingar um það, hve grundvöllurinn undir, lögunum sje góður. En grundvöllurinn er enginn annar, en að ná í blindni í fje úr vasa landsmanna. Jeg segi að verðtollurinn sje skárri, — jeg vil biðja menn að taka eftir orðinu «skárri«, — þar sem þar er heimtað, að lögð sjeu fram skjöl. »Fer orð ef um munn líður«, en því fremur þau, sem skrifuð eru. Áhættan er þar mikið meiri, ef rangt er skýrt frá, því að þá er hægt að sanna á menn skjalafals, sem þung refsing liggur við sem kunnugt er. Og þótt sonur búi hjer á landi, og faðir hans erlendis, þá býst jeg ekki . við, að þær fari að styrkja frændsemisböndin með því, að falsa skjöl hvor fyrir annan. Það er mikið viðurhlutameira en að rugla einhverjum vörum saman í umbúðum, stinga silkibút inn í umbúðir vöru, sem er minni tollur af eða því um líkt. En fyrir þá sem versla með dýrar vörur, er vörutollurinn betri og hægra líka að svíkja hann; jeg tala nú ekki um, ef menn t, d. hafa bæði silki- og pappíraverslun í senn. Það er hægur vandi að setja silkibúta inn í pappírspakkana.

Enn fremur sagði háttv. framsm. (B. K.), að það þektist hvergi um heim allan að heimta af mönnum, að þeir sýndu kaupreikninga sína eða þess konar. Þetta er nú ekki allskostar rjett, að minsta kosti er mjer kunnugt um það, að í nýlendum Breta verða menn að sýna tollþjónunum upprunaskírteini vörunnar og og fleiri skjöl. En jafnvel þótt þetta væri einsdæmi, þá ætti það ekki að fæla okkur frá því, að taka upp viturlegt ráð fyrir þá eina sök.

Það er rjett hjá hv. frsm. (B. K.), að hjer er verið að reyna að finna aðferð, sem þurfi sem minst eftirlits með. Þetta frumv. kemur því nær, vegna þess, að menn ráðast síður í það að falsa skjöl en að rugla saman vörum í umbúðum. En annars þýðir lítið að vera að þrátta mikið um þetta. Það yrði það sama upp aftur og aftur, þm. fengju að heyra mína skoðun í annað eða þriðja sinni og skoðun háttv. framsm. (B. K.) í tíunda eða tuttugusta sinni.

Háttv. framsm. (B. K.) lagði mikla áherslu á þenna helgidóm kaupmanna, sem hann vildi ekki að kastað væri á glæ, viðskiftaleyndinni. Jeg lái honum það ekki. En henni er alls ekki kastað á glæ, þótt tollþjónar, sem bundnir eru þagnarskyldu, sæju kaupreikningana. Ef jeg segði, að ómögulegt væri að leggja fje sitt inn í Landsbankann, vegna þess, að starfsmenn bankans hlytu að vita um það, þá býst jeg við því, að háttv. framsm. (B. K.) brygðist reiður við og segði, að leyndarmál mitt væri vel geymi, því að starfsmenn bankans væru bundnir þagnarskyldu. En það er engin ástæða til þess að halda, að aðrir, sem fara með trúnaðarmál, sjeu meiri skrafskjóður en bankamenn og læknar, sem bundnir eru þagnarskyldu. Þessi ástæða hv. frsm. (B. K.) er því fallin um sjálfa sig. Jeg skal svo ekki orðlengja svar mitt til háttv. framsögum. meira. Jeg hefi leyft mjer að. koma fram með 2 brtt. við þetta frumv. Svo stendur á hinni fyrri, að í frumv. er vitnað í reglugjörð, sem er úr gildi numin. Brtt. mín vitnar til hinnar nýju reglugjörðar, sem þegar er samin, og þótt hún hafi ekki fengið gildi enn þá, þá sakar það ekki, því að ekki er ætlast til þess, að frumv. gangi fyrr í gildi en það, að hún verður þá komin í framkvæmd.

Hin brtt. er til þess, að menn samþykki ekki, þegar þeir við atkvæðagreiðsluna þjóta upp úr sætum einum með þessu frumv., að tvenn tollög sjeu í gildi í senn. Vörutollslögin voru nýlega framlengd, en jeg ætlast ekki til að þessi lög komi í framkvæmd, fyrr en þau eru úr gildi.

Að öðru leyti þarf jeg ekki að fjölyrða málið. Nefndarálit mitt gjörir það svo ljóst, hver munur er á., og vjefengingar og athugasemdir háttv: framsm. (B. K.) hefi jeg hrakið. Þótt menn bani þessu frumv. mínu, þá er jeg þess fullviss, þegar vörutollslögin eru úr gildi, að þá verði þetta frumv. tekið til athugunar af nýju, eða einhver önnur aðferð tekin, sem er minna rán úr vasa landsmanna, hvort sem það verða þá beinir skattar eða eitthvað annað. Jeg skal viðvíkjandi þeim að eins skýra frá því, hvers vegna jeg hefi ekki lagt til, að þeir yrðu teknir upp. En svo stendur á því, að eins og nú hagar til yrðu allir fasteignaskattar ábúðarskattar, sem hittu jafnt ríkan og fátækan, en það væri órjettlæti.