06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

44. mál, fuglafriðun

Sigurður Sigurðsson:

Jeg bjóst við því, að háttv. framaögum. dýrtíðarnefndarinnar (S. B.) myndi segja nokkur orð um breytingartillögu mína. (Sveinn Björnsson: Ætla að geyma mjer það). En úr því að hann ætlar að geyma sjer það, þá vil jeg í stuttu máli gjöra grein fyrir henni.

Breytingartillagan fer fram á að fella burt 1. og 2. gr. frumv. á þgskj. 211, og að nema það aftan af 5. grein, sem stendur í sambandi við þessar umgetnu greinar. Jeg hygg, að menn geti verið fljótir að átta sig á, að þessi breyting er til bóta. Mjer finst, að dýrtíðarnefndin, sem átti að benda mönnum á sem hagkvæmastar leiðir út úr vandræðunum, hafi ekki látið ýkjamikið eftir sig liggja, enn sem komið er, annað en þetta kynduga frumvarp á þingskj. 211. Það má heimfæra upp á nefndina málsháttinn gamla: Fjöllin tóku ljettasótt, og gátu af sjer litla mús. (Bjarni Jónsson: Parturiunt montes, nascitur ridiculus mus!). Jeg er ekki laus við að vera hálfhissa á þessu frumvarpi, og finst það satt að segja vera að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur. (Sveinn Björnsson: Þar sem hann er hæstur). En þar sem lítil von er um það, að þetta frumvarp falli hjer, eftir því sem atkvæðagreiðslan fjell við 2. umræðu, og hefði verið langæskilegast, þá vildi jeg hafa sniðið af frumvarpinu mestu hneykslin.

Við fyrstu umræðu þessa mála var bent á það allrækilega, að lítið væri unnið við að ófriða þessa fugla, sem lítill eða enginn matfengur er í. Jeg get algjörlega tekið undir það, og þarf ekki fleiri orðum að því að eyða; það er svo augljóst. Jeg álít, að dýrtíðarnefndin sæla hefði átt að snúa sjer að einhverju öðru, sem happavænlegra hefði verið landi og lýð og bjargvænlegra en fuglafriðunarlögunum, eða þeirri breytingu á þeim, að ófriða nokkura smáfugla, því slíkt er einber hjegómi.

Jeg vona að svo mæltu, að háttv. deild samþykki tillögur mínar, því þær eru einfaldar og óbrotnar og miða til bóta. Ella felli hún frumvarpið.