06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

44. mál, fuglafriðun

Bjarni Jónsson :

Það væri gaman að heyra, hvort þessi háttv. þm., sem nú settist niður, hefir ekki frjett líka af undirtektum konungsvaldsins undir þetta mál, svo að maður geti hagað atkvæði sínu eftir því.

Annars stóð jeg upp til að lýsa yfir því, að mig hefir hent sá gleðilegi hlutur, að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir sannfært mig, raunar ekki um það, sem hann vildi, heldur um hið gagnstæða. Af því að jeg hefi metið þessi lög fremur lítils, hafði jeg í hyggju að vera á móti þeim, en nú hefir hann komið því til leiðar, að jeg ætla að greiða atkvæði með lögunum. Raunar þætti mjer það hálfleiðinlegt, ef jeg með því yrði þess valdandi, að háttv. 1. þm. S.-M. (G. E.) þyrfti að rogast með lagasafnið með sjer, ef hann færi út að skjóta. Það væri miklu hentugra fyrir hann, að hafa með sjer þetta eina blað, sem hann gæti hæglega stungið í vasa sinn.

Jeg skil ekki vel, hvers vegna þessar brtt. eru fram komnar, nema ef það skyldi vera vegna arnarins, en jeg skal ekki halda lengra út í það. Kann ske það sje líka til að bjarga skúmnum frá drápi, og þá get jeg skilið það. Jeg held nú reyndar, að frumv. sje naumast svo mikils virði, að eyðandi sje fyrir það brtt. og umræðum. Jeg ætla ekki heldur að fara að eyða að því mörgum orðum, en jeg stóð að eins upp til að láta deildina vita, hvað vel háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefði tekist að sannfæra mig, þegar hann fór að tala latínuna.