31.07.1915
Neðri deild: 21. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

54. mál, póstsparisjóðir

Guðmundur Eggerz:

Jeg skil ekki í þessum umræðum. Nefndin hefir einmitt farið þá leið, sem vant er að fara, og hæstv. forseti hefir þegar lýst yfir því, að hún hafi farið að samkvæmt þingsköpunum. Hinu legg jeg lítið upp úr, hvort nefndarálitið er margar eða fáar línur. Mjer er ekki kunnugt um, að þingsköpin ákveði hve nefndarálit skuli vera margar línur.

Ef frumv. væri svo örðugt viðfanga, að háttv, þingmönnum væri ofvaxið að átta sig á því, þá er auðvitað ekkert við því að segja. Þeir ættu þá ekki að greiða atkvæði. Þó vil jeg benda háttv. þingmönnum á það, að nefndin skilur frumv. og er fús að veita þeim »undirvísun« kauplaust.

Það var víst háttv. þingm. Snæf. (S. G.), sem fann þetta púður, en jeg held að það hafi komist væta í púðrið hjá honum í þetta sinn.

Jeg fyrir mitt leyti vil ekkert um málið tala nú. Jeg vil að það gangi til 2. umr. og mun þá gjöra grein fyrir fyrirvara mínum.