04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

74. mál, skipun prestakalla

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Með lögum um skipun prestakalla frá 1907 er svo ákveðið, að Saurbæjarprestakall og Grundarþing skuli sameinuð og verða eitt prestakall. Þessi breyting á að komast á þegar núverandi prestur í Saurbæjarprestakalli fer frá brauðinu, sem vafalaust verður á næsta vori.

Síðan lögin um skipun prestakalla komu í gildi, hefir megn óánægja verið út af þessu ákvæði í báðum prestaköllunum. Og óánægjan hefir ágjörst því meir, sem nær hefir dregið því, að þessi breyting, sem lögin mæla fyrir, kæmist í framkvæmd. Því var það, að þetta mál var borið upp á þingmálafundi að Grund í Eyjafirði í síðastliðnum júnímánuði. Á fundinum var samþykt áskorun til þingsins um að breyta prestakallalögunum þannig, að bæði þessi prestaköll hjeldust aðskilin, eins og verið hefir. Annað fanst meiri hlutafundarmanna ekki geta til mála komið.

Síðastliðinn vetur var þessu máli hreyft í öllum sóknum beggja prestakallanna, og til þess að sýna afstöðu sóknarmanna til þessa máls, þá hafa nú um 500 manns sent beiðni til þingsins, um að lögunum yrði breytt í sama horf og áður var, eða með öðrum orðum, að prestaköll þessi hjeldust aðskilin, eins og nú er. Þessi undirskriftarskjöl liggja frammi hjer á lestrarsalnum og hafa verið til sýnis háttv. þingmönnum.

Til skýringar þessu máli, skal jeg taka það fram, að rætt hefir verið um, hvort ekki myndi tiltök að fá einhverja kirkjuna lagða niður, en reynslan hefir orðið sú, að enginn möguleiki er til þess, að fá því fram komið, því að bæði sóknarnefndunum og öðrum sóknarbúum í öllum sóknunum er þetta eindregið á móti skapi. Hver um sig segist ekki sjá neina ástæðu til þess, að leggja niður sína kirkju, þar sem það ljetti ekki af sóknarbúum neinum kostnaði, en gjöri það aftur á móti að verkum, að fólk eigi miklu örðugra með að sækja kirkju sína.

Jeg minnist þess, að á þingmálafundi í fyrra vor, var þeirri spurningu beint til prestsins á Hrafnagili, hvað honum litist um þetta mál, og ljet hann þá það álit sitt í ljós, að með sameining brauðanna væri að mestu leyti girt fyrir það, að presturinn gæti haft þau áhrif á æskulýð safnaðanna, sem æskilegt væri, og hann teldi jafnvel mestu máli skifta af öllu hinu andlega starfi presta.

Það sjest nú af því, sem jeg hefi sagt, að þessi samsteypa brauðanna er mjög á móti skapi sóknarmanna, og þar að auki að áliti prestsins mjög illa til fallin, svo jeg vona, að þingið taki vel í málið, og kosin verði hjer í deildinni 5 manna nefnd, til þess að athuga það, að þessari umræðu lokinni.