16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

128. mál, rjúpnafriðun

Pjetur Jónsson:

Þetta frumv. á ekkert skylt við frumvarpið um fuglafriðun, er lá hjer fyrir í deildinni fyrir skemstu, því að frumv. það, sem hjer ræðir um, er ekki komið fram til þess, að ráða lítilsháttar bót á yfirvofandi matvælaskorti, heldur er hjer að eins að ræða um breyting á fuglafriðunarlögunum til frambúðar, að upphefja það ákvæði er gjört var 1913, að rjúpan skyldi vera alfriðuð 7. hvert ár.

Mjer virðist það, satt að segja, nokkuð fljótráðið, að upphefja þetta ákvæði úr lögunum, áður en fengin er reynsla um það, hvernig þetta ákvæði kunni að gefast. Jeg veit með vissu, að það eru margir ánægðir með þessi friðunarákvæði, eins og þau eru nú. Ætti því að bera þetta undir atkvæði manna yfirleitt í landinu, ef menn vilja bera fyrir sig þjóðarvilja um þetta.

Því er þannig háttað, að í mínu hjeraði, og jafnvel í Þingeyjarsýslu allri, er rjúpnaland mikið, og það er mjer að minsta kosti kunnugt um, að menn þar höfðu yfirleitt ekkert út á þetta að setja. Enda fæ jeg ekki sjeð, að það sje óhagkvæmara, að hafa veiðitímann eins langan og nú er í lögunum, og svo alfriðun 7. hvert ár, heldur en að stytta veiðitímann árlega, en taka aftur friðarárið og þannig hafa friðunartímann í heild sinni álíka langan. Þvert á móti er þetta fyrirkomulag óhagkvæmara fyrir marga.

Jeg þekki ekki til þess, að rjúpnaveiðar sjeu nokkursstaðar hjer á landi sjerstakur atvinnuvegur. En hitt er rjett, að þær eru hjálparatvinnuvegur fyrir þá, er rjúpnalöndin eiga. En þess verður líka að gæta, að frumv. þetta útilokar sum hjeruð frá rjúpnaverslun, ef það verður að lögum, og yrði þó enn verra, ef friðunartíminn væri færður til 15. október. Í sumum hjeruðum er ómögulegt að senda til útlanda þær rjúpur, sem veiðast um og eftir miðjan október, svo þau útilokast þá alveg frá rjúpnaversluninni. Sumstaðar hagar svo til, að rjúpan flýr úr þeim löndum, sem hún ækslast í, þegar líður á haust; flýr í fjöll og hraun. Þeir, sem mest tilkall eiga til rjúpunnar, missa hana því að mestu, þegar friðunartíminn nær langt á haust fram.