16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

128. mál, rjúpnafriðun

Flutningsm. (Jóhann Eyjólfsson):

Það er ekki hægt að segja, að frumv. hafi verið tekið vingjarnlega í háttv. deild, og þarf jeg ekki að vera hissa á því. En á hinu er jeg hissa, að því skuli hafa verið tekið með eins miklum misskilningi og raun hefir á orðið. Á jeg þar aðallega við háttv. 1. þm. Rang. (E. J.), er jeg ætla þó ekki að svara að þessu sinni, því mjer virðist bann nú vera þannig á sig kominn, að það væri ekki viðeigandi eða gustuk að taka orð hans öll mikið til greina.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) taldi það verr farið, að breytt væri fuglafriðunarlögunum að því leyti, sem frumv. fer fram á. En jeg vil benda háttv. þm. S.-Þing. á það, að það hlýtur að vera til bóta, þó nokkrum mönnum verði ef til vill ekki gjört neitt til hags með þessu, ef allur þorri manna vinnur við það.

Sami háttv. þm. (P. J.) sagði, að rjúpnaveiðar væru ekki sjerstök atvinnagrein. Það er alveg rjett. Enda hefi jeg að eins sagt, að þær væru hjálpar atvinnugrein, og erum við þá sammála um það atriði. En það veit jeg með vissu, að svo mikið kveður að þessari atvinnugrein, að það yrði tilfinnanlegur bagi fyrir þá, er hana hafa stundað, ef þeir yrðu sviftir henni. Jeg þekki marga bændur, er hafa haft styrk af rjúpnaveiðum og þurft að lifa af þessari atvinnu 7. hvert árið, engu síður en hin sex.

Jeg hefi ekki mikið talað um þjóðarvilja í þessu sambandi. En jeg hugsa, að það fyrirkomulag, er frumv. fer fram á, sje hagkvæmara, og það sem til hags horfir, vilja menn yfirleitt að leitt sje í rjetta átt. Þar sem jeg hefi þessa sannfæringu, þá býst jeg við því, að mönnum muni það fremur kært, að frumv. verði samþykt.

Þó að þetta sje ekki dýrtíðarráðstöfun, þá myndi þó mörgum manninum, og það kaupstaðarbúum líka, þykja það hvimleitt, að mega ekki skjóta rjúpuna sjer til bjargar og gagns. Frumv. hefir því þann mikla kost, að um leið og það fer fram á að gjörðar verði lagabreytingar, felur það í sjer ekki svo lítilvægar dýrtíðarráðstafanir á komanda vetri.