21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (2423)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Guðmundur Eggerz:

Jeg vil einnig beina máli mínu til háttv. tilvonandi nefndar. Mjer er sagt, að það, sem best hafi stutt að jarðræktinni í öðrum löndum, sje það, að jarðeignirnar hafi verið í sjálfsábúð. (Sveinn Björnsson: Það er ekki rjett). Jeg ætla ekki að deila við háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) um þetta mál, en jeg vil benda honum á, að jeg hefi þetta eftir manni, sem áreiðanlega hefir betur vit á búskap og búnaðarmálum en hann, og maðurinn er biskupinn, herra Þórhallur Bjarnarson.

Árið 1905, þegar þjóðjarðasölulögin voru samin, var áætlað, að á öllu landinu væru hjer um bil 500 landssjóðsleiguliðar. Jeg sje að þetta frumv., sem nú liggur hjer fyrir, er flutt af sama manni (P. J.), sem þá barðist heitast á móti þjóðjarðasölulögunum. Jeg skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp það, sem hann sagði meðal annars um þjóðjarðasölulögin þá. Menn geta þá frekar glöggvað sig á skoðun háttv. þingmanns S.-Þing. (P. J.) í þessu máli.

Hann kemst svo að orði í einni ræðu sinni á þinginu 1905:

»Ef það hefir verið aðalprincipið, að selja jarðirnar leiguliðunum, þá játa jeg, að tvö princip komi fram í þjóðjarðasölufrumvarpi okkar, en hafi hitt verið aðalatriðið, að koma» jörðunum í sem bestar hendur, þá hefir ekki komið fram nema eitt princip, og það er að mínu áliti rjett«.

Þetta sýnir, að háttv. þingm. S.-Þing. (P. J.) hefir ekki álitið lögin principlaus 1905, og þá býst jeg við, að þau sjeu það ekki fremur enn í dag. Jeg sje því enga ástæðu til, að Alþingi fari að samþykkja þessi frestunarlög, sem hjer er farið fram á. Við vitum það, að nú á tímum þyrpist fólkið til sjávarins og bændur eiga mjög erfitt með að fá nægan vinnukraft, til þess að rækta jarðir sínar. Það væri því hart, ef þingið færi að gjöra þeim enn örðugra fyrir, og draga úr áhuga þeirra á jarðræktinni, með því að samþykkja þessi frestunarlög. Jeg býst einnig við því, að það sje principið með þessum frestunarlögum, að fá þjóðjarðasölulögin numin úr gildi fyrir fult og alt. Mjer finst nú að það hefði verið miklu hreinlegra princip af þessum háttv. flutnm. þessa frumvarps, að koma heldur með frumv. um að fella lögin úr gildi nú þegar.

Jeg vil einnig benda mönnum á, að heimild sú, sem þjóðjarða- og kirkjujarðasölulögin veita ráðherranum til að selja jarðir, er mjög takmörkuð. Það eru margir hreinsunareldar, sem kaupsbeiðnin þarf að fara í gegnum, áður en viðkomandi fær jörðina keypta. Fyrst þarf kaupbeiðnin að fara til sýslunefndar, og hún þarf að gefa sín meðmæli með því, að jörðin verði seld, þá fær umboðsmaður klausturjarðanna næst beiðnina til athugunar, og því næst sendir hann hana með sinni umsögn til stjórnarráðsins. Og enn er það að athuga, að því hefir margsinnis verið hreyft á þinginu, að ekki væri rjett að selja þjóðjarðirnar, og því er eðlilegt, að ráðherrarnir sjeu varasamir með að selja. Þetta sýnir það, að ólíklegt er, að nokkur jörð sje seld, nema fylsta sanngirni mæli með því, að ábúandi fái hana keypta.

Jeg trúi því illa, að bændur þeir, sem sæti eiga hjer í þinginu, vilji ekki unna sjettarbræðrum sínum út um land þess, að fá að verða aðnjótandi sömu sanngirni og aðrir hafa orðið aðnjótandi, og vona því, að hver einasti þeirra greiði atkvæði á móti þessum frestunarlögum.

Jeg vil benda mönnum á, hver afleiðingin yrði af því, ef þessi frestunarlög næðu fram að ganga. Afleiðingin yrði sú, að hjer yrði á hverju einasta þingi framvegis, fult af frumvörpum um sölu á þjóðjörðum, fult af bænaskrám til Alþingis frá einstökum mönnum um, að þeir fengju jarðir sínar keyptar. Tími þingsins mundi því eyðast mjög í slíkt. Og reynsla fyrri ára hefir sýnt, að oftast nær komast slík frumv. í gegn um þingið. Þetta verð jeg að telja mjög óheppilegt; þarna yrði tekin í burtu sú trygging, sem áður hefir verið fyrir því, að jarðirnar verði ekki seldar, nema nauðsyn beri til og öll sanngirni mæli með, en lítil sem engin trygging sett inn í staðinn, því að vitanlega hefir þingið miklu minna vit á, hvenær beri að selja einhverja jörð, heldur en þeir, sem nú samkvæmt þjóðjarðasölulögunum eiga um málið að fjalla. Það var áhugmál þjóðarinnar 1905, að þjóðjarðasölulögin kæmust í gegn um þingið, og það er ekki síður áhugamál hennar nú, að þau fái að standa óhreyfð. Enda er það ósanngirni mikil af þinginu, ef það færi að gjöra sjer mannamun og veita sumum rjett til að kaupa, en neita öðrum um sömu sanngirniskröfu.

Það hefir verið bent á það, að það gæti veikt lánstraust landsins, ef þjóðjarðirnar yrðu seldar. Hitt gæti ekki síður veikt lánstraust landsins, ef þingið færi að hætta að hlúa að bændastjettinni. Það eru fá lög, sem tryggja rjettindi leiguliðanna, og þeir fá litla uppbót fyrir vinnu sína. Það vakir sennilega fyrir háttv. flutningsmönnum þessa frumvarps, að það sje hættulegt að veikja lánstraust landsins, með því að selja jarðirnar, og því vildi jeg benda þeim á, að það getur verið enn hættulegra fyrir lánstraustið að selja þær ekki.

Og enn er eitt atriði, sem taka verður til greina í þessu máli og snertir tilfinninguna. Jeg býst varla við, að hv. 1. þm. Rvk. (S. B.) þekki það atriði, því að hann er uppalinn hjer í Reykjavík. (Sveinn Björnsson: Á sama stað og háttv. þm. (G. E.), sem talar). Ónei, jeg er nú upp alinn í sveit.

Það atriðið, sem jeg mintist á, og mjer finst skifta miklu máli í þessu efni, er það, að þegar menn eru búnir að búa á sömu jörðinni í 20–25 ár, þá eru þeir búnir að taka ástfóstri við jörðina og þeim er beinlínis farið að þykja vænt um hana, og þá tekur það feikilega sárt að þurfa að hrekjast burtu þaðan, eða börn þeirra. Einmitt þetta atriði hefir mikla. »praktiska« þýðingu, því ábúendurnir vita, að fái þeir jörðina keypta, þá gengur hún í erfðir til afkomendanna, og þeir leggja sig miklu meir í framkróka með að bæta jarðir sínar þá en ella.

Það hefir verið ofmikið gjört úr því, að þjóðjarðasölulögin komi ekki að notum, sökum þess, að jarðirnar gangi brátt aftur úr sjálfsábúð. Það getur verið, að hætta sje á, að þetta komi fyrir hjer nálægt Reykjavík, þar sem einstakir »spekúlantar« beita sjer eins og þeir geta, til þess að ná í sem flestar jarðir. En uppi í sveitum stendur öðru vísi á, og skal jeg ekki fara frekar út í það nú.

En benda skal jeg á það, að stjórnarráðinu er hægurinn hjá að sjá við þessum leka og setja undir hann, með því að segja upp hinum hagstæðu kjörum, sem jarðirnar eru seldar með, því til þess hefir það fulla heimild, svo framarlega sem það vill beita henni, ef »spekúlerað« er með jarðirnar.