09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Guðmundur Björnson:

Jeg býst við, að mörgum þyki dagskrá mín nýstárleg, og hún er það líka. Að fresta málum um tiltekinn tíma, veit jeg ekki til að tíðkast hafi fyrr hjer á þingi. En jeg vil vekja athygli á aðferðinni, því jeg hygg hana góða. Oft hefir það komið fyrir, að þörf mál hafa verið feld í flaustri, en hefðu komist fram, ef þeim hefði verið frestað um tiltekinn tíma til nánari athugunar. Hitt þarf ekki að taka fram, að mál hafa einnig gengið fram, sem margir óska að aldrei hefði orðið, og það hefir verið því að kenna, að aldrei hefir verið siður að taka sjer umhugsunartíma á þennan hátt.

Framsögumaður vill taka málið út af dagskrá; jeg vil fresta því um hálfan mánuð. Hans tillaga er að fresta málinu um ótiltekinn tíma. En jeg vil athuga málið um tiltekinn tíma. Hitt er að svæfa það. En það er ekki hægt að segja um þá aðferð, að fresta því ákveðinn, tiltekinn tíma, um hálfan mánuð. Jeg vona að allir vilji heldur hallast að rökstuddu dagskránni. Það er bæði þinglegra og verklegra að fresta um tiltekinn tíma, heldur en að taka málið út af dagskrá og láta það liggja niðri um óákveðinn tíma.