10.08.1915
Efri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Framsm. (Guðm. Ólafsson) :

Jeg fyrir mitt leyti verð að lýsa því yfir, að jeg hafði ekkert haft á móti því, að listakosning yrði notuð, en jeg fæ ekki sjeð, að munurinn sje svo mikill á þessari aðferð, sem ætlast er til í frumvarpinu, og listakosningu. Það má líta á alla atkvæðisbæra menn sem frambjóðendur, og þarf einungis að velja á milli þeirra. Að öðru leyti fer kosningin fram að öllu sem prestskosningar, því þar eru engir listar við hafðir. (Steingrímur Jónsson : Þar eru frambjóðendur). Það kemur alveg í sama stað niður, því líta má á alla atkvæðisbæra menn sem frambjóðendur.

Háttv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.) var hræddur um að kosningarnar yrðu meira pólitískar við það að vera gjörðar leynilegar. Jeg verð að játa, að jeg fæ ekki vel skilið, hver ástæða ætti að vera til þess. Og fyrst hættan er svo mikil á því, að kosningar verði frekar pólitískar fyrir þá sök, að þær eru gjörðar leynilegar, því var þá verið að gjöra kosningarnar leynilegar til bæjarstjórna og Alþingis, því enginn mun álíta það hag, að kosningar verði pólitískar? Háttv. þingmaður (Stgr. J.) kvað þetta vera síðustu leifar hins forna fyrirkomu: lags, og var þess vegna sárt um þær. En fyrst sú stefna hefir verið tekin upp, að nota leynilegar kosningar, þá er eins sjálfsagt að nota þær við þessar kosningar sem aðrar. Jeg get ekki skilið það, er hann sagði, að það væri áreiðanlega nauðsyn að nota listakosningu. Mjer þætti fróðlegt að sjá, hvernig hann færi að sanna það. Slíku er jafnan hægt að slá fram. röksemdalaust, en sönnun er það engin.