11.09.1915
Efri deild: 58. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

3. mál, kosningar til Alþingis

Guðmundur Björnson :

Jeg er háttv. frsm. (K. F.) öldungis samdóma um, að það er langhentugast fyrir þjóðina, að báðar kosningarnar fari fram sama dag, og jeg fæ ekki sjeð, að í stjórnskipunarlögunum sje neitt því til fyrirstöðu. Það er sjálfsagt líka talsvert til í því, að landskosningar verða verr sóttar og minna kapp við þær kosningar, en það getur þó verið, að þær verði vel sóttar. En það er fleira, sem er takandi til greina; það er stórsparnaður, að láta báðar kosningarnar fara fram sama dag. Hjer í frumv. er hugsað að hafa landskosninguna á miðju sumri. Við skulum gjöra ráð fyrir 10000 kjósendum, sem fellur verk úr hendi þann dag. Ef dagsverkið er metið á 3 krónur, nemur vinnutapið 30000 krónum. Það er því auðsætt, að það er þjóðarsparnaður, að láta báðar kosningarnar fara fram sama daginn. Jeg býst reyndar ekki við, að það þýði mikið að halda þessu fram, og finst mjer þó ástæðan, sem höfð er á móti þessari skoðun minni, harla ljettvæg og einkis nýt. Því að hver er ástæðan? Sú, að þeir, sem eigi ná kosningu við landskosningarnar, verði að fá tækifæri til að bjóða sig fram við hjeraðakosningar. En við vitum, að það verða margir nýtir menn, sem ekki komast að við hjeraðakosningu, og hafa þá ekkert tækifæri til að bjóða sig fram aftur. Hvað er þá hinum vandara um, sem falla við landskosningar? Þetta er hrein og bein hugsunarvilla.

Hjer er um tvent að ræða. Jeg hefi margoft hreyft því í sumar hjer á þingi og hreyfi því enn, að eins og nú standa sakir í heiminum, þá getur orðið öldungis. óhjákvæmilegt að kveðja saman aukaþing að sumri. Það er því óforsvaranlegt af hinu háa Alþingi, að ætla að teygja umboð. sitt fram á næsta haust, því að á aukaþingi að sumri, ef til kemur, ættu að sitja nýkosnir menn. Jeg sagði þetta við 1. umr. þessa máls og jeg segi það enn Eins og alkunnugt er, þá eru hin nýju, stjórnarskipunarlög staðfest 19. júní, en í þeim er ekki sagt, hve nær þau ganga í gildi, og það merkir, að þau ganga í gildi12 vikum eftir að þau eru birt í B-deild Stjórnartíðindanna. Hjer er sagt, að stjórnin með þegjandi samþykki Alþingis ætli nú. að stinga hinum nýju stjórnarskipunarlögum undir stól í heilt ár. Jeg verð að. segja þetta, því að jeg hygg að það sje satt. Og margt hefir komið flatt upp á mig á þessu þingi, en ekkert þó eins og, þetta, ef nú á að stinga þessum dýrmætu lögum undir stól og geyma þau í heilt ár. Það er ófyrirgefanleg óhæfa. Það er vitanlegt, að ef stjórnin gjörir það með þegjandi samþykki Alþingis, þá fær hún enga bakslettu. En það er jafn illa farið fyrir því. Jeg skil ekki, að þjóðin gjöri sjer slíkt að góðu. Það er öllum almenningi ljóst, að margt getur borið við, sem gjörir nauðsynlegt að halda þing aftur næsta ár, og þá á það að vera nýtt þing. Því verð jeg að mæla eindregið móti þessu, að draga landskosninguna fram til næsta sumars og hjeraðskosninguna til næsta hausts. Því hefir verið hreyft oft í sumar, að það sje alveg nóg að hafa 6 vikur milli kosninganna, til þess að þeir, sem ekki ná landskosningu geti boðið sig fram í hjeraði.

Menn hafa fundið að því, að óhægt væri að láta landskosningar fara fram á útmánuðunum, en jeg sje ekki annað, en að það sje í lófa lagið, að koma báðum kosningunum af fyrir júnímánaðar lok næsta ár. Þess vegna hefi jeg komið fram með þessa brtt. mína á þgskj. 915.

Jeg vil að landskosningin fari fram laugardaginn í 4. viku sumars, en ekki 1. júlí, og hjeraðskosningar laugardaginn í 10. viku sumars, en ekki 9. septbr. Laugardagurinn í 4. viku sumars verður 13. maí, en. laugardagurinn í 10. viku sumars er 24. júní. Jeg fæ ekki annað sjeð en að það sje fullhentugur tími til kosninga, og megi því vel við una að öllu leyti. Ef till. mín nær fram að ganga, verður um mitt næsta sumar til nýkosið þing.

Það var verið að segja hjer í gær, að við konungkjörnu þingmennirnir hefðum bara einn kjósanda; það er satt, en sá eini kjósandi er líka hans hátign konungurinn. Jeg þori að fullyrða, að hans hátign konunginum líkar illa að heyra það, að hinni nýju stjórnarskrá sje stungið undir stól.

Við konungkjörnu þingmennirnir erum ekki kosnir fyrir neitt sjerstakt kjördæmi, heldur fyrir alla þjóðina. Jeg hlýt því í nafni konungs og í nafni þjóðarinnar að mótmæla því, ofbeldi við stjórnarskipunarlögin, að stinga þeim undir stól fram á næsta haust. Jeg vona, að hv. Ed. íhugi vel þetta mál og aðgæti, hvort það getur talist sæmilegt fyrir núverandi þm., að teygja umboð sitt fram á næsta haust.

Jeg vil að síðustu segja, að það er máske rjettast að taka málið út af dagskrá, svo að hægt sje að taka það til alvarlegri umhugsunar en því hingað til hefir hlotnast.