14.09.1915
Efri deild: 62. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Framsm. (Björn Þorláksson):

Af ummælum mínum við 2. umr. málsins er það ljóst, á hvern veg jeg tek í tillögu þessa; jeg vil ekki að hún sje samþ. Jeg er. hræddur um örlög frv., ef það er hrakið aftur til hv. Nd., en jeg vil ekki stofna því í neitt það, sem hætta getur af stafað. Við vitum, að það var erfitt með samkomulag um þetta frv. þar, og því meiri tvísýna, ef það fer þangað aftur.

Till, fer fram á það, að breyta verði á Labradorfiski úr 36 kr., eða 18 au. á pund hvert. Mjer er talsvert kunnugt um fisk þennan, því hann er seldur mikið á Seyðisfirði. Jeg hygg að þetta sje rjett verð, eftir því sem það var áður en stríðið hófst, og sama hefi jeg heyrt annarsstaðar að af landinu. Að setja verðið 46 kr. er of hátt, því jeg hygg að það verð hafi ekki fengist fyrir þenna fisk, fyrr en eftir að stríðið hófst. Hv. þm. bar þenna fisk saman við verðið á ýsunni, en sje ýsuverðið borið saman við verðið á smáfiski, þá er jeg ekki í vafa um, að ýsuverðið er of hátt. (Karl Finnbogason: Jeg hefi ekki á móti því). Þá ætti heldur að breyta ýsuverðinu. En jeg held það sje best að láta sjer það lynda, vegna frumvarpsins.

Jeg vil skjóta því til hv. þm. Seyðf. (K. F.) hvort hann vilji ekki taka brtt, aftur, því jeg hygg hann geti hvorki fullvissað mig nje aðra um það, að hún verði ekki frv. að falli í hv. Nd., ef hún verður samþ. Og jeg býst við, að hann vilji ekki taka þá ábyrgð á sig.