14.09.1915
Efri deild: 61. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Framsm. (Björn Þorláksson):

Það er eins um þetta frv. og frv., sem var næst á undan á dagskrá, verðhækkunartollinn, að nefndin hefir einungis haft örstuttan tíma til að íhuga það. Eins og menn sjá, er það tekið fram í nefndarálitinu, að meiri hluti nefndarinnar, þrír nefndarmenn af fimm, telur það óþarft, og leggur hann það til, að frv. verði ekki látið ganga fram. Einu nefndarmaður hefir ekki enn látið uppi sína skoðun á málinu og einn hefir tjáð sig frv. fylgjandi.

Jeg skal reyna með örfáum orðum að rökstyðja álit meiri hluta nefndarinnar. Þetta frv. mun eflaust vera fram komið sökum þess, hve mikið hefir verið talað um dýrtíð hjer á síðustu tímum, svo nú eru þeir menn jafnvel farnir að trúa á, að hún sje fyrir hendi, sem ekki gátu komið auga á það áður. En ekki held jeg, að það geti dulist mönnum, sem hafa augun vel opin, að þessi dýrtíð er öllu meiri í orði en á borði. Mest er hún í kauptúnunum, og þá sjerstaklega í Reykjavík, bæði í orði og á borði. Í sveitunum er alls ekki ástæða til að kvarta yfir dýrtíð.

Þetta frv. fer fram á að veita bæja- og sveitastjórnum heimild til þess, að gjöra sjerstakar ráðstafanir til að bæta úr dýrtíðinni. Jeg hygg, að mörg ráð muni vera til, sem aðgengilegri sjeu en að láta bæja- og sveitastjórnirnar jafna gjaldi niður á efnaðri menn, til þess að hjálpa þeim, sem lakar eru settir. Hjer í Rvík virðist til dæmis liggja beinna við að loka sumum skemtistöðunum, t. d. kvikmyndahúsunum. Mjer finst því frekari ástæða til þess að loka þeim, að jeg hefi heyrt marga skynsama menn halda því fram, að þessar sýningar væru mjög skaðlegar fyrir augu allra, er á horfðu, skaðlegar fyrir tilfinningalíf ungra og óþroskaðra manna og skaðlegar fyrir pyngju manna. Kunnugur og sannorður maður, sem vissi um tekjur kvikmyndahússins hjer í Rvík, meðan það var ekki nema eitt, hefir sagt mjer að þær hafi verið um 90,000 kr. á ári, og áætlaði hann að tekjur beggja húsanna til samans mundu nú vera 150,000 kr. ári, þ. e. áður en kostnaður er dreginn frá. En nú er það víst, að fátækara fólk er jafnvel enn sólgnara í þessar skemtanir en aðrir, og eru jafnvel dæmi til þess, að menn hafa neitað sjálfum sjer og sínum um mat og drykk, til þess að geta veitt sjer þá skemtun, að horfa á þessar sýningar.

Jeg vík aftur að því, að þetta frv., ef það yrði að lögum, og þó það sje að eins heimild, yrði til þess að kveikja enn meiri barlóm hjá mönnum, og það yrði til þess, að fleiri leituðu dýrtíðarhjálpar hjá bæjar- og sveitastjórnum. Og þegar þær yrðu ekki við bænunum, yrði það, að jeg hygg, til þess, að baka sveitarstjórnum óvinsældir og erfiðleika.

Þegar jeg lít á frv., þá virðist mjer það óþarft. Þar segir svo, að jafna eigi niður, þegar sveitarstjórnirnar telja brýna þörf. Þær eiga að skera úr því, hvort svo er eða ekki. En það getur orðið afar erfitt fyrir sveitarstjórnir að dæma um, hve nær þörfin er svo brýn, að virkilega sje nauðsynlegt að láta niðurjöfnun fara fram.

Sveitarstjórnir geta með svo mörgu móti hjálpað fátækum mönnum, er erfitt eiga með að komast af. Jeg benti áðan á eina aðferð, þá, að sveitarstjórnir spornuðu við því, að fátækir fjölskyldumenn eyddu fje sínu um of í skemtanir, og gjörðu það með því, að loka um stund óþokkuðum skemtistöðum.

Besta hjálpin, sem hægt er að veita fátækum fjölskyldumanni, er að útvega honum einhverja atvinnu yfir veturinn. Um sumarið þarf þess ekki, því þá skortir vinnukraft, og þá er ekki hægt að vinna allt það, sem þörf er á. En á veturna er erfitt að fá vinnu. Jeg hygg, að hjer á Suðurlandi; þegar veðurátta er mild, mætti vinna að jarðabótum og ýmsri annari útivinnu, og ef svo er, þá virðist hægt að útvega hana, ef hlutast er til um það í tíma.

Jeg vil að svo mæltu, fyrir mína hönd, og meiri hluta nefndarinnar, leggja til að frv. sje felt.