06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

27. mál, strandferðaskip

Framsm. (Þorsteinn Jónsson):

Mjer þykir vænt um að heyra, að menn hafa ekkert fundið athugavert við frv. þetta. Umræður hafa aðallega snúist um áætlunina, sem því fylgir á þgskj. 57. En frv. sjálft getur gengið sína götu óhindrað. Mun jeg fara þess á leit við nefndina, að hún láti prenta upp aftur áætlunina og taka þá til greina athugasemdir þær, er fram hafa komið, eftir því sem hægt er. Auðvitað má engin ætlast til, að fullnægt verði öllum þörfum með þessu eina skipi, og að það geti komið á hverja höfn í hverri ferð.

Nefndin ætlast svo til, að flóabátar fylli upp í eyður þær, sem strandferðaskipin hljóta að láta eftir sig. Auðvitað verða ætíð eftir smástöðvar, sem hvorki flóabátarnir nje strandferðaskipin geta komið á. Þar verða menn að bjargast eftir föngum á annan hátt. Hjer er verið að ráða fram úr hinum brýnustu þörfum, en auðvitað er ómögulegt að fullnægja öllum hugsanlegum þörfum. Jeg skal mæla með því, að nefndin taki áætlunina aftur til athugunar, en vona þá, að háttv. deild láti frv. ganga óáreitt áfram.