11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

48. mál, afnám laga

Þórarinn Jónsson:

Jeg skal ekki lengja umræðurnar mikið.

Það hefir alt af verið skoðun mín, að verðhækkunartollur þessi sje órjettlátur og hafi ófyrirsynju verið á lagður.

Hann er í fyrsta lagi órjettlátur af því, að framleiðslan er að mínu áliti óhæfur tollstofn. Sjest það ljósast af því, að mikið af framleiðslunni fer ekki út úr landinu, og er því laust við allan útflutningstoll; það lendir sem sje undan tollinum alt, sem bæirnir taka upp.

Nú er vitanlega ekkert rjettlæti í því, að kaupmenn eða kaupfjelög dragi tollinn í sinn vasa, en landssjóður hafi ekki neitt, en það verður þó í þessu tilfelli, sem jeg benti á, því að verð á afurðunum er miðað við tollinn, eða ákveðið af kaupmönnum og kaupfjelögum með tilliti til hans. Ef samræmi ætti að vera í þessu, þyrfti alveg sjerstaka skattálagningu á það, sem ekki flytst út, og sjá allir, hversu óhentugt og óhæft það er.

Í öðru lagi er hann ósanngjarn að því leyti, að hann lendir tiltölulega þyngst á fátæklingum. Og í þriðja lagi hafa lögin það ákvæði, sem óhæfa er að sjá í lögum frá þinginu. Jeg á hjer við lágmarksverðið, eða rjettara sagt hámarksverðið, sem sett er á íslenskar afurðir. Jeg á við verðið, sem tollurinn er miðaður við. Jeg álít, að það hafi gjört þjóðinni margfaldan skaða við það, sem landssjóður hefir grætt. (Pétur Jónasson: Þetta er misskilningur). Nei, það er enginn misskilningur, Af hverju hafa Bretar miðað verð á ýmsum þessum vörutegundum nákvæmlega við þetta verð ? Auðvitað af því, að þingið gefur það upp sem nægilega hátt á afurðum landsins. Slík þjóðfulltrúa-nægjusemi er líklega einstæð í heiminum, enda hefir hún nú borið þann ávöxt, sem aldrei verður tölum talinn. Af þessum ástæðum finst mjer því fyr því betra, að þau falli út úr löggjöf landsins. Náttúrlega má og á að líta á það, að landssjóður tapar við það. En væru þau ekki feld úr gildi fyr en t. d. í maí næstkomandi, svo að allar afurðir, sem nú liggja hjer á landi, yrðu komnar utan, þá tel. jeg ekki miklu tapað frá landssjóðs hálfu, því að töluverður meiri hluti deildarinnar hygg jeg, að sje á því, að á næsta þingi verði þau feld úr gildi. Annars gjöri jeg þetta ekki að neinu kappsmáli nú. Hefl að eins viljað taka þetta fram til þess að sýna skoðun mína á málinu.