06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

38. mál, Langadalsvegur í Húnavatnssýslu

Flutnm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þessa tillögu með samþykki háttv. fjárveitinganefndar og meðmælum landsverkfræðings. Það eru aðallega tvær ástæður fyrir flutningi þessarar till. Fyrri ástæðan er sú, að fje þetta er ónotað, og síðari ástæðan er sú, að fylsta nauðsyn ber til, að vegi þessum sje haldið áfram.

Eins og háttv. deild er kunnugt, voru veittar 7.000 krónur hvort árið í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar, sem lagt var fyrir þingið 1915, til Langadalsvegar í Húnavatnssýslu. En á þinginu breyttist þetta svo, að fjeð vartekið frá Langadalsveginum síðara árið, en veittar 7.500 kr. til bryggjugjörðar á Blönduósi. Mun þetta hafa orðið að samkomulagi við þm. kjördæmisins.

Nú hefir svo farið, að verk þetta hefir eigi komist í framkvæmd, sökum ýmissa óviðráðanlegra orsaka, meðal annars þess, að byggingarefni er orðið meira en helmingi dýrara en þegar áætlun um verkið var gjörð, svo að bryggjan mundi fara svo langt fram úr áætlun, að engi kostur er að byrja á verkinu.

Þá kem jeg að síðari ástæðunni, þörf vegarins. Vegur þessi er póstvegur, eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt, og því frá þeirri hlið ekki einasta stór þörf að gjöra veginn færan, heldur

bein skylda þingsins, og er þegar orðinn á því óhæfilegur dráttur.

Svo hagar vegi þarna um dalinn, að hann liggur framan í fjallshlíð og oft svo erfiður og ógreiður yfirferðar, að pósturinn kemst ekki óhindrað leiðar sinnar. Verður hann því að fara yfir tún manna og engjar, og er mönnum eðlilega slík umferð óljúf. Fyrir 5 árum var mikið þóf og þjark um póstumferðina þarna. Þegar vegurinn var ófær upp í fjallshlíðinni, sem aðallega var að vorinu, varð pósturinn að fara um engjar og tún manna, til stórskemda í leysingum. Sumir afgirtu þá þessi svæði, og leit þá svo út um tíma, að póstgöngur yrðu hindraðar. Fóru umkvartanir og skrif um þetta mál milli stjórnarráðs og hlutaðeigenda.

Árið 1912 leyfðu þó hlutaðeigendur, að lagður væri vegur um lönd þeirra og engjar, án endurgjalds, en með þessu leyfi var skiljanlega jafnframt átt við það, að vegur þessi kæmist sem fyrst alla leið, því á meðan það er ekki, verður eigi hjá því komist að þeir, sem þessa leið fara, bæði póstar og aðrir, skemmi lönd manna og spilli þeim. Vegur þessi hefir verið mældur og áætlaður kostnaður við lagningu hans 45.000 kr., og hefir landsverkfræðingur talið hann meðal þeirra vega, er hann í brjefi til samgöngumálanefndar Alþingis 1914 álítur, að eigi að koma fyrstir. Það er þess vegna ljósara en alt annað, að þetta fje, sem hjer er farið fram á, er engin ný fjárveiting, því að því minna þarf síðar til vegarins að leggja. Hjer á líka hlut að máli mjög góð sveit, sem ekki hefir nema hálf not vegarins enn þá, og má telja það mikla ástæðu.

Að öllu þessu athugu vona jeg því, að deildin sjái að þetta er sanngjörn krafa, sem jeg ber fult traust til að nái óhindruð fram að ganga.