10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

41. mál, skaðabætur til farþeganna á Flóru

Einar Jónsson:

Jeg sje því miður, að háttv. framsm. (M. P.) er ekki viðstaddur nú eins og vera skyldi.

Jeg gat ekki greitt atkvæði með þessari till., síðast þegar hún var hjer til umræðu, og skal jeg nú gjöra nánar grein fyrir atkvæði mínu.

Jeg skal síst neita því, að það muni vera þörf fyrir fólkið að fá þessa peninga, en jeg lít svo á, að hjer þurfi varlega að fara. Það hefir verið sagt, að fólkið hafi orðið fyrir atvinnutjóni. Það er auðvitað satt, en atvinnutjón getur oft komið fyrir á öllum sviðum atvinnugreinanna, og varla getur það þó verið meiningin að landssjóður verði látinn borga það alt. Jeg álít að það geti gefið skaðlega hættulegt fordæmi, ef þetta verður samþykt. Jeg lít svo á, að heppilegra væri, að landið lánaði þessu fólki peninga, til þess að komast af í vetur, gegn ábyrgð bæjarsjóða og sveitastjórna, þar sem fólkið á heima. Jeg vildi gjarnan greiða atkvæði með því, að fólkinu yrði hjálpað á þenna hátt, en ekki með því beinlínis, að gefa þeim þessa peninga, því að jeg tel vitanlega hæpið, að Bretar borgi nokkurn tíma nokkurn eyri.