10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Þórarinn Jónsson:

Það sem kemur mjer til að segja nokkur orð, er það, að ýmsir þingmenn hafa slegið fram setningum, sem jeg álít allsendis rangar.

Háttv. framsm. (G. Sv.) sagði, að tillögur nefndarinnar væru þær einu rjettu, þrungnar af viti og rjettiæti, í einu orði algóðar.

Annar háttvirtur þingmaður sagði, að óhæfa væri, að afgreiða þetta mál, nema að bera það fyrst undir kjósendur landsins, og þriðji sagði, að nefndin hefði ekkert farið eftir efnum og ástæðum embættismannanna með þessum mælikvarða, sem nefndin hafði tekið.

Öllu þessu vil jeg mótmæla.

Jeg tel tillögur nefndarinnar ekki rjettlátar, af því að svo mikill munur er gjörður á uppbótum eftir embættis- eða sýslunarlauna-hæð.

Það er alkunnugt, að hjá öllum þjóðum er mikið af oflágt launuðum embættum eða sýslunum, og það getur engum komið til hugar að ríkin eða ríkisstjórnin bæti upp þessar stöður svo, að hver fjölskyldumaður sem er, eða maður með mikinn framfærslukostnað geti lifað á þeim. Þau eru ekki nema fyrir einhleypa menn, eða þá að mennirnir geti haft aðra atvinnu aukreitis. Enda mun flest af þessum störfum vera svo vaxin, að menn geta haft talsverðar tekjur fyrir aukastörf.

Af þessu leiðir það, að þessi embætti og sýslanir eru alt of mikið bætt upp, samanborið við önnur, og því er grundvöllurinn orðin efni og ástæður, þrátt fyrir mótmæli háttv. nefndrar. Það nær engri átt, að þetta mál eigi fyrst að bera undir þjóðina eða kjósendur, því ef hjer er um nauðsyn að ræða, sem jeg álít að sje. Þá ber að taka hana til greina strax, enda trúi jeg því ekki, að kjósendur landsins sje yfirleitt svo óþroskaðir að þeir skilji ekki afstöðu sína til embættismannanna. Vil jeg því fara örfáum orðum um skyldu þjóðarinnar við embættismenn sína, og hins vegar skyldu embættismannanna við þjóðina, eins og jeg lít á það.

Sjálfsagt ganga allir inn á það, að embættin sje ekki til fyrir mennina, sem í þeim sitja, heldur fyrir þjóðina og því muni það fyrst á þjóðinni bitna, ef embættismennirnir geta ekki lifað í embættum, vegna lágra launa, og til þess gæti það leitt, að allir nýtustu og bestu mennirnir veldu sjer aðrar arðvænlegn leiðir, sem nú er óðum að fjölga, og þá sæti þjóðin eftir með ónytjunga og dáðleysu í embættunum, og er þá ver farið. Hins vegar lít jeg líka svo á, að embættismennirnir hafi ótvíræðar skyldur við þjóðina. Þær skyldur, að á tímum eins og þeim, sem nú standa yfir, eigi þeir að spara; þeir eigi sem sagt að líða með þjóðinni, bera með henni þær byrðar, sem ófyrirsjáanleg óhöpp leiða yfir hana. Því er nú svo varið með alþýðu þessa lands, að hún er háð öllum dutlungum náttúrunnar og öðrum óhöppum. Þessu getur hún ekki varist, nema með sínum eigin krafti; hún hefir ekkert annað til að hlaupa upp á. Hún hefir engin önnur úrræði en að þrengja að sínum kosti og spara. Jeg vil því láta embættismennina taka það með í reikninginn, að ef verkamenn landsins og önnur alþýða fellur, þá sje þeim hætta búin.

Jeg veit það, að embættismennirnir hafa mest sjálfir gengist fyrir því, að fáþessa uppbót, og tel jeg það ekki lastvert. En ef jeg færi þetta út á víðari svið, þá sje jeg ekki, að neitt hafi verið gjört til þess, að bæta kjör annara. (Bjarni Jónsson: Það kemur ekki þinginu við). Veit jeg það, að nánast kemur það við bæjarstjórnum og landsstjórn. Við höfum haft hjer til meðferðar í þinginu bráðabirgðalög um verðlagsnefndir, en engin verðlagsnefnd er til. Kaupmennirnir hafa því einveldi að okra á ýmsum lífsnauðsynjum, og kemur það vitanlega því þyngra niður á þeim, sem eru úrræðaminni og getuminni. Þetta mun nú hafa verið gjört hjá öllum öðrum þjóðum en okkar, að ráða bót á þessu. Og það vænti jeg að fái aðra stefnu, þegar landssjóður hefir tekið að sjer að bæta kjör sinna starfsmanna. Jeg segi þetta af því, að jeg er einn þeirra manna, sem ekki geta gjört brauð af steinum. Þess vegna finst mjer rjett, að fara þann miðlunarveg, að veita uppbót, en ekki fulla í samanburði við verðfall peninganna, og eins finst mjer sanngjarnt, að draga úr henni hjá þeim, sem minstar hafa þarfirnar og bestar ástæðurnar. Það get jeg tekið fram, að jeg er ekki samþykkur háttv. þingm. í að hafa svona mikinn mun á „skalanum“, og eins vil jeg ekki undanskilja hálaunuðu embættismennina alveg undan uppbótinni. Mjer þætti t. d. óviðfeldið, ef svo þrengdi að ráðherra landsins, að hann gæti ekki sýnt þá risnu, sem þjóðinni sæmdi, og alt af geta verið í hálaunaðri embættum menn, sem þurfa uppbótar, kann ske ekkert síður en hinir.

Svo að jeg víki að þessari brtt., þá vil jeg geta þess, að jeg setti aðallega nafn mitt á hana af því, að mjer er illa við, að allir framleiðendur, sem í embættum eru, fái dýrtíðaruppbót, án þess, þó að jeg vilji gjöra nokkuð lítið úr starfi þeirra, eða að mjer sje nokkuð ver við þá en aðra embættismenn. Nei, því fer fjarri. Heldur er það miklu fremur af metnaði þeirra vegna. Jeg veit, að þeir vilja ekki heldur taka fje úr landssjóðnum, ef ástæða er engin til, og dýrtíðin þrengir ekki að þeim. Margir barnakennarar t. d. eiga engu erfiðara uppdráttar nú en þeir áttu fyrir stríðið. Þeir hafa sama kaupið og fá ókeypis fæði, þjónustu og húsnæði á bæjunum, þar sem þeir kenna. Þó eiga þeir að njóta þessa styrks samkvæmt þingsályktunartillögu fjárveitinganefndarinnar. Hvað prestana snertir, sem búa út um land, þá má vel taka tillit til þess, að ríkið leggur þeim til jarðir til ábúðar, og mega þeir því vel við una þá tekjuhámarksupphæð, sem brtt. gjörir ráð fyrir.

Annars get jeg ekki verið að eyða mörgum orðum að tillögunni. Hún er áreiðanlega yfirleitt til bóta og til þess að draga úr gjöldum landssjóðs, en vel má vera, þó að rjettlætt sje á einu sviði, þá gjöri það ranglæti á öðru, og verður seint við því sjeð. En eina sanngjarna rödd um málið hefi jeg heyrt frá hæstv. ráðherra (B. K.). Hann sagði, að ef uppbótinni yrði ekki rjettlátlega jafnað niður nú, þá standi sú niðurjöfnun til bóta á næsta þingi.

Eitt atriði vildi jeg þó minnast dálítið á. Það er drengskaparskýrslan. Sumir háttv. þingmenn hafa hneykslast á henni, og er leiðinlegt að verða að hlusta á þess háttar tal. Eins og það sje ekki sjálfsagt, að mennirnir gefi rjettar skýrslur. Eða er það venja, að þær sje ekki gefnar rjettar? Jeg álít sjálfsagt, að menn gefi slíkar skýrslur alt af rjettar.

Þá hefir verið um það talað, að fjöldinn af þingmönnum gæti ekki greitt atkvæði í þessu máli samkvæmt 44. gr. þingskapannna.

Til þess nú að þessir menn verði ekki af þessu, þá vil jeg, hvað mig snertir, ekki gjöra neina kröfu til þessarar uppbótar, svo jeg geti greitt henni atkv. (Bjarni Jónsson: Það er fallega gjört). Já, og jeg býst við, að háttv. þm. Dala gjöri það sama; hann segir þetta svo brosandi.

Jeg hleyp yfir ýmislegt, sem jeg hafði punktað upp hjá mjer, til þess að lengja ekki umræðurnar.