08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

32. mál, skipun bankastjórnar

Þorsteinn Jónsson:

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók það fram, að orð hefði farið af því, að bankastjórn Landsbankans hafi verið hlutdræg. Jeg man ekki eftir, að hafa heyrt kvartanir í þessa átt. En þótt einhver hefði getið sjer slíks til, tel jeg ekki sæma Alþingi að hlaupa eftir Gróusögum. Sumir halda, að allir sje hlutdrægir. Hafi einhverjum manni verið neitað um lán, sakir ónógrar tryggingar, má búast við, að þann teldi það stafa frá stjórnmálalegri hlutdrægni, ef hann hefði aðra stjórnmálaskoðun en bankastjórnin.

Sami háttv. þm. (G. Sv.) hafði það eftir mjer, að engir fjármálamenn mundu sitja á þingi, ef bankastjórum væri bönnuð þingseta. Það hefi jeg aldrei sagt. En hinu held jeg fram, að bankastjórarnir mundu að jafnaði vera bestu fjármálamenn landsins. Og jeg taldi það skaða, ef þessum mönnum væri bægt frá að sitja á þingi. Jeg verð að segja það, að mjer finst vjer eiga helsti fáa fjármálamenn. Það kemur að minsta kosti lítil fjármálaviska fram í þessari till. háttv. alþingismanna, er að henni standa.

Háttv. þm. (G. Sv.) taldi, að bankastjórarnir mundu geta orðið að sama liði, þótt þeir ættu eigi sæti á Alþingi; það væri hægt að leita til þeirra, og sækja til þeirra fjármálavit. Það er ekki sama, hvort vitið er sótt til annarra, eða menn leggja það til sjálfir. Þá gjörði heldur ekkert til, þótt þingmenn hefðu ekki vit á nokkru þingmáli, ef þeir gætu sótt þingvit til einhverra manna í Reykjavíkurbæ; en það er af flestum ekki álitið alveg sama, hvort menn sækja vit til annarra eða hafa það sjálfir.

Jeg miskildi ekkert viðvíkjandi bankastjórum Íslandsbanka. Mjer var það ljóst, að þeim er ekki hægt að banna þingsetu, nema að breyta stjórnarskránni. Þessa till. er ekki heldur hægt að samþykkja, nema með því að breyta stjórnarskránni.

Það eru lítil líkindi til, að maður, sem hefði ágæta hæfileika á fjármálasviðinu, og hefði löngun til að vinna að opinberum þjóðmálum, vildi ganga að því, að verða bankastjóri og missa þar með kjörgengi sitt. En það eru mikil líkindi til þess, að fær bankamaður vildi einnig gefa sig við stjórnmálum og eiga sæti á Alþingi. Til þessa höfum vjer dæmin deginum ljósari.

Jeg vil ekki fara í neinn mannjöfnuð við háttv. flutnm. (M. Ó.). Mjer er ekki vel við slíkt á Alþingi. Jeg þekki hann svo vel, að jeg veit að hann hefir leitað vandlega að því, hverjum embættismönnum erlendis sje bönnuð þingseta. Og hefði hann með þeirri samviskusamlegu rannsókn, sem jeg veit, að hann hefir gjört, getað fengið nokkra vitneskju um, að bankastjórum væri bönnuð þingseta, hefði hann vafalaust látið þess getið, til enn meiri styrktar málstað sínum. En það hefir ekki komið fram í umr. Hann kvaðst sjá hversu þingið væri skipað, ef till. sín fjelli. Já, auðvitað sæist þá, að það vildi ekki skerða í neinu persónulegt frelsi manna, nje samþykkja áskoranir, er fara í bág við stjórnarskrána. En annars mun þingmaðurinn hafa meint, að þá sæist að Alþingi væri öðruvísi en það á að vera, að þá sýndi það þroskaleysi sitt. Annars finst mjer óviðeigandi, að þm. í ræðum sínum beri þeim á brýn þroskaleysi, sem ekki hafa sömu skoðun og þeir sjálfir.