12.01.1917
Neðri deild: 26. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Gísli Sveinsson:

Jeg er ekki fylgismaður hæstv. stjórnar, en jeg beygi mig fyrir ástandi tímanna, og þegar hæstv. stjórn ræður deildinni til þess, að gjöra ekki harðari kröfur til bankans en farið er fram á í frv., þá beygi jeg mig fyrir því, þótt jeg álíti ekki, að það beri að veita bankanum sjerstök hlunnindi. Því jeg lít svo á, að það gæti orðið landinu hnekkir, ef bankinn sæi sjer ekki fært að nota útgáfurjettinn, sem frv. heimilar.

Hitt þykir mjer ekki laust við óhollustu, að sumir háttv. þm., sem studdu stjórnina til valda og eru hennar fylgismenn kallaðir, koma nú með tillögu á tillögu ofan, sem brjóta alveg í bág við skoðun hennar og eru þvert ofan í ráð hennar og fyrirætlanir. Skal jeg svo ekki fjölyrða meir um þetta, en mun greiða atkv. með frv. óbreyttu.