08.01.1917
Efri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Magnús Kristjánsson:

Að eins örfá orð viðvíkjandi breytingartillögunni, því að um aðalefni málsins hefi jeg engu við að bæta það, sem jeg hefi áður tekið fram því viðvíkjandi, og þessi athugasemd er algjört formsatriði.

Mjer finst þingið enn ekki vera búið að átta sig á, hvernig tákna skuli hið nýmyndaða ráðuneyti, þegar það kemur fram sem heild. — Hjer er um tvö frumvörp að ræða, annað um verðlag á vörum, en hitt um seðlaukning Íslandsbanka. En tvö orð, ráðuneyti og landsstjórn, eru hjer höfð til að tákna sama hugtakið. En slíkt er ósamræmi, sem á ekki að eiga sjer stað, síst í lagamáli. Hvort þessara orða sje í sjálfu sjer betra, skal jeg engan dóm á leggja, en betur myndi jeg fella mig við orðið, sem breytingartillaga seðlaukninganefndarinnar kemur fram með, en það orð er landsstjórn.