12.01.1917
Efri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

44. mál, útflutningsgjald af síld

Magnús Kristjánsson:

Mjer virðist þessi till. um rökstudda dagskrá nokkuð snemma á ferðinni, meðan málið er ekki rætt. Vil jeg fyrst benda á, að sjávarútvegsnefndin leit svo á, að eitthvað bæri að gjöra, til þess að verjast sívaxandi yfirgangi útlendinga, sem útveg þennan stunda, og fanst þetta heppileg leið. En að mínu áliti gæti ýmislegt fleira komið til álita, sem mætti íþyngja þessum mönnum með á annan hátt. En sökum þess, hversu tíminn er naumur sje jeg ekki ástæða til að fara út í það.

Annað atriðið er það, að það virðist vera brýn þörf á því, að auka tekjur landsins, og þá vandfundinn hentugri tekjustofn, er lægi nær en þessi, því árið 1915 mun framleiðslan hafa verið 350,000 tunnur. En frá árinu 1916 liggja ekki glöggar skýrslur fyrir; en það er fullyrt, að þrátt fyrir hinar mörgu tálmanir Englendinga og hindranir, hafi þó framleiðslan verið 150,000 tunnum meiri það ár. Og engum dettur í hug að gjöra ráð fyrir, að minna muni veiðast en 500,000 tunnur næsta ár, ef alt fer með feldu. Er þá hægt að reikna, hvað miklar tekjur landssjóðs yrðu af því: og öllum kemur saman um þörf hans fyrir tekjurnar.

En það er annað, sem þarf að taka fram. Það var annað frumvarp í Nd. samferða þessu frumvarpi, og sem átti að verða því samferða. Þau áttu að fylgjast að og hljóta að fylgjast að.

Það er óverjandi, að innlendir menn eigi að greiða sama toll og útlendir. Mjer er ókunnugt um, hvernig á því stendur, að hitt frumvarpið hefir dregist aftur úr, og kemur því hik á mig, hvað langt jeg á að fylgja þessu.

Það hefir orðið nokkur ágreiningur, bæði í þessari deild og neðri deild, hvora aðferðina eigi að hafa, að afgreiða frv. nú eða á næsta þingi. Jeg held, að það sje nokkuð sama hvor aðferðin er höfð, og jeg held, að þessi ótti við nágrannaþjóðirnar sje ástæðulaus. Hvaða ástæða getur verið fyrir aðrar þjóðir, að blanda sjer inn í þetta mál, sem ekki er neitt utanríkismál, heldur algjörlega innanríkismál, sem snertir einstaka þegna og einstaka menn? Getur nokkur minsta ástæða verið fyrir því, að ein þjóð neiti viðskiftum, eða gjöri úr því meiri rekistefnu, þó að nokkrir þegnar hennar stundi síldarútveg í landi, þar sem útflutningstollur er lagður á síld, sem aðalatvinnugrein og tekjustofn landssjóðs? Álit jeg, að slíkur hugsunarháttur geti leitt þingið út á brautir, sem ekki eru heppilegar. Hvaða ástæða ætti að vera fyrir því, að þeir neiti um vörur til framleiðslunnar ? Auk þess, sem þetta hefir breytst þann veg, að vörur þessar hafa verið teknar frá öðrum löndum, Svíþjóð og Danmörku, þá hafa þær fengist frá Bretlandi. Og þó að svo væri, að oss yrði neitað um ýmsa vöru frá Noregi, ætti oss að liggja það í ljettu rúmi, því að það er svo ákaflega margt, sem mælir með því, að þetta mál nái fram að ganga.

Háttv. þm. Ísf.,(M.T.) sem lagði fram dagskrána, hjelt því fram, að leikur væri að afgreiða málið á næsta þingi. Það yrði þá að gjöra strax í þingbyrjun, því annars væri það eigi nema vindhögg, ef það væri ekki gjört fyr en í þinglok. Og landið tapaði að minsta kosti 1 miljón króna tekjum. Mönnum blöskrar ekki að tala um miljón á seinni tíð, en þó er þetta upphæð, sem við getum ekki vel verið að sleppa tækifærinu til að fá í landssjóðinn, enda væri það lítt verjandi.

Jeg býst við, að ýmsir eigi eftir að taka til máls, og fer það eftir undirtektum, hvort jeg finn ástæðu til að taka aftur til máls.

Jeg vil ekki gjöra mjer málið að kappsmáli, ef það er einlægur ásetningur deildarinnar að láta það ná fram að ganga á næsta þingi, og að þetta sama takmark náist þá. En það á kann ske síður við, að geta þess við þessa umræðu.

Jeg hefi orðið var við óánægju hjá nokkrum mönnum út af því, að eigi sje goldin 2% af tollinum í innheimtulaun, eins og áður, heldur að eins 1%. Af því að hækkunin sje, segja þeir, að innheimtan verði meiri. En það má með sama sanni segja, að af því að tollurinn er meiri, verða og innheimtulaunin meiri, þótt ekki sje nema 1%.

Enn þótt jeg telji algjörlega hættulaust að samþykkja frv. þetta, getur verið, að það sje ekki bráðnauðsynlegt, ef það nær fram að ganga á næsta þingi.