03.09.1917
Efri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Magnús Kristjánsson:

Jeg verð að byrja á því að beina örfáum orðum til háttv. þm. Ísaf. (M. T.). Mjer fellur reyndar illa að þurfa þess, því að hann hefir að mörgu leyti verið á sömu skoðun og jeg og komið með margar góðar bendingar til stjórnarinnar. En þegar fram í ræðu hans kom, fór hann, því miður, að tala yfir sig. Jeg álít, að hann hafi eyðilagt nytina að nokkru leyti, eins og kallað er, svo að jeg viðhafi ekki stærri orð.

Jeg skildi ekki háttv. þm. (M. T.), er hann komst inn á þá braut að tala um hlutdrægni stjórnarinnar gagnvart samvinnufjelögunum og kaupmönnum. (M. T.: Jeg nefndi ekki hlutdrægni.) Jeg held, að sá kafli ræðu hans hefði mátt falla niður. Jeg er sammála hæstv. stjórn um, að hún hafi reynt þar að sigla milli skers og báru, þó að sú leið sje vandfarin.

Jeg mótmæli því, sem háttv. þm. (M. T.) sagði, að kaupmannastjettin hafi haft skaðleg áhrif á bjargráð landsins. Því að jeg þori að fullyrða, að hún hefir fram að þessu síðasta ári flutt um 9/10 af nauðsynjavörum til landsins, sem landsstjórnin hafði engin tæki til þess að afla. Jeg álít það að eins til þess að ala á illindum og úlfúð og metnaði, að gera upp á milli kaupmanna og samvinnufjelaganna.

En það er víst steinolíusalan, sem leiddi háttv. þm. (M. T.) út á þessa braut. En því er nú svo varið, að það er víst í eðli hans að halda, að nú sje öll kaupmenska rekin í sama einokunarforminu og þegar selstöðuverslanirnar voru hjer á landi. En þetta er alveg ástæðulaus ímyndun, af hverju sem hún kann að vera sprottin. Því að það má með sanni segja, að nú er ekki ein einasta slík selstöðuverslun á landinu og ekki heldur á Ísafirði. (M. T: Jeg mintist ekki á selstöðuverslun.) Slíkt tal sem þetta er þess vegna alt út í bláinn.

Þá vildi háttvirtur þm. (M. T.) víta landsstjórnina fyrir að hafa falið þeim manni forstöðu landsverslunarinnar, sem haft hefir hana á hendi að undanförnu. Slík ávítun finst mjer alveg ástæðulaus. Þetta er valinkunnur og vel þektur verslunarmaður og vanur að hafa á hendi verslunarstjórn. Og mjer virðist miklu fremur ástæða til að átelja stjórnina fyrir að hafa slept honum úr þjónustu sinni, ef hún gat á annað borð haldið honum.

Jeg þarf ekki að beina fleirum orðum til háttv. þm. Ísaf. (M. T.), enda er hann dauður.

(M. T.: Jeg fæ tækifæri til þess að minnast á þetta síðar).

Þá skal jeg minnast fáeinum orðum á ástæðurnar, sem forsætisráðh. færði fyrir ráðstöfunum, sem jeg mintist á áðan, og þótti þá eigi hafa farið sem best úr hendi hjá hæstv. landsstjórn.

Aðalástæða hans var sú, að ekki hefði verið gott að gefa ívilnun á farmgjaldinu, af því að þetta hefðu ekki verið landssjóðsvörur. Jú, þetta má nú auðvitað segja. En hinu má líka með sanni halda fram, að heppilegra hefði verið, að þær hefðu talist landssjóðsvörur. Það er rjett hjá hv. þm. Ísaf. (M. T.), að það kostaði menn talsvert fje, að fjelagið fjekk ótakmörkuð umráð yfir vörunum. Og jafnvel þótt jeg sje þeirrar skoðunar, að stjórnin eigi sem minst að blanda sjer í viðskifti og vöruflutninga kaupmanna, þá virtist athæfi fjelagsins svo vaxið í þessu efni, að ástæða hafi verið til að taka í taumana. Fjelagið bauð steinolíuna fyrir 67 kr. tunnuna, en eftir örstuttan tíma var tunnan seld á 73 kr. Það er þetta, sem, því miður, hefir haft óheppilegar afleiðingar. En um hitt, sem forsætisráðh. vildi halda fram, er það að segja, að mjer og öðrum er það líklega eins ljóst og stjórninni, hversu mikið það kostar að koma vörum kringum landið, en jeg hygg, að sanna megi, að ef ferðunum hefði haganlegar verið fyrir komið, hefði flutningsgjaldið eigi þurft að vera hærra en 10 kr. á tunnuna. Það er auðsætt, að ekki þýðir að vitna í þetta, þar eð skipið var látið koma við á fleiri höfnum og leggja þar upp vörur, sem það hafði flutt fyrir lægra gjald en olíuna. Ef skipið hefði að eins flutt olíuna og hraðað ferð sinni með hana, mundi vel mátt hafa komast af með 10 kr. gjald á tunnuna. Það sjá allir, að það er ekki heppilegt, að fluttar sjeu vörur þannig, að taka 100 kr. fyrir tonnið af sumum, en á sama tíma og með sama skipi 30—40 kr. af öðrum. Þar að auki er þess að gæta, að skipið tafðist vikutíma í þoku úti fyrir Reyðarfirði, sem er sjaldgæft á sumardegi. En sú töf verður líklega lögð á sameiginlegan kostnað skipsins.

Jeg bið hæstv. stjórn að athuga þetta, áður en hún ákveður til fullnustu endurgreiðslu farmgjaldanna. Jeg held, að 5 kr. lækkun geti ekki dregið úr þeirri óánægju, sem orðið hefir af farmgjaldshækkuninni. Menn mundu ekki verða þolanlega ánægðir með minna en 10 kr. lækkun.

Jeg þarf svo ekki að eyða fleirum orðum að þessu. Alt, sem jeg hefi tekið fram, sannar mál mitt, að ekki muni ástæðulaust að íhuga, hvort eigi megi koma landssjóðsversluninni í betra horf en verið hefir.