27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Pjetur Jónsson:

Fyrir mig er það ekki nóg, sem felst í ákvæðinu til bráðabirgða. Það var ekki mín meining að draga á langinn, að því leyti að taka Eiðaskólann, heldur hitt, hvort gerlegt væri að skuldbinda landið til þess að stofna svona lagaðan skóla.

Jeg lít svo á, að skólamál, eins og alt annað, eigi að hafa heildarsamræmi. Nú skilst mjer, að fyrir háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) vaki að setja upp, ekki venjulegan unglingaskóla, heldur eitthvað æðri skóla. En slíkt hefir oft verið sagt um skóla, sem tranað hefir verið fram, t. d. Flensborgarskólann. Hjer er þó, skilst mjer, ekki um fullkominn gagnfræðaskóla að ræða, eins og þá, sem eru í Reykjavík og Akureyri. En hefði sá verið tilgangurinn, þá var síður að óttast fordæmið, því að þá er að eins um fjórðungsskóla að ræða. En þetta sjest ekki á frv., nje heldur það, að skólanum sje ætlað að taka eitthvað fram öðrum unglingaskólum vorum.