30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

93. mál, eignarnám eða leiga á brauðgerðarhús o.fl.

Bjarni Jónsson:

Jeg stend upp, eins og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), til þess, að háttv. þingdeild sjái, að hann hefir ekki sannfært mig. Jeg tel mjög vafasamt, hvort þetta er í anda stjórnarskrárinnar, og það er ekki ályktun frá því meira til hins minna, ef alt er skemt og kemst í niðurníðslu. Hinn háttv. þm. (E. A.) þarf ekki að kveðja sjer hljóðs; jeg veit, hvað hann ætlar að segja, að eigandi geti fengið fult endurgjald fyrir verkfæri og aðra niðurníðslu. En ef búið er að flæma skiftavinina burt, bætir enginn tjón það, er klaufarnir, sem falið var að reka brauðgerðarhúsið, hafa bakað því. Á slíkt er ekki hægt að gefa álag. Auk þess hefi jeg enga tröllatrú á þessu mati, sjerstaklega ef hlut eiga að máli hataðir brauðgerðarmenn, sem hafa selt ofdýrt, að annara dómi en sínum.

Jeg held, að það sje rjett, að mjög vafasamt sje, hvort þetta er í samræmi við hugsun löggjafarinnar, þótt lögfræðingar skýri svo frá. Það er algerlega rangt, að það sje ályktun frá meira til minna, því að skaðinn er minni, ef eign er tekin fullu verði, en ef hún er tekin á leigu með öllum umráðarjetti um skamman tíma. Það er móðgun, ef eignin er tekin til að reka undir öðru nafni um skamman tíma, en engin móðgun, ef þjóðfjelaginu sýnist að kaupa hana fullu verði sjer til eignar.