21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Forsætisráðherra (J. M.):

Það mun vera rjett athugað hjá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að skömmu eftir nýárið var eitthvað af vörum sent til Austurlands flutningsgjaldslaust. Stjórnin leit svo á, að henni væri þetta heimilt, en ekki fyrirskipað af þinginu. Það, að tillagan var tekin aftur, skildum við einmitt á þann hátt, að ekki væri heimtað af stjórninni að framfylgja þessu.

Annars stóð jeg upp til að geta þess, að þessi skýrsla, sem nú er í höndum bjargráðanefndar, var afhent nefndinni eingöngu og að það var ekki meiningin, að hún yrði opinberuð að svo stöddu. Það eru í henni atriði, sem ekki væri heppilegt að birta, en meginhluti hennar er þannig, að vel mætti prenta, og Verður sjálfsagt gert síðar.

Það var að eins þetta, sem jeg vildi taka fram, svo að mönnum verði skiljanlegt, að skýrslan hefir ekki verið birt enn þá.